Ég hef áhyggjur af limastærð minni

Spurning:

Sæll.

Ég er 25 ára. Ég var á stefnumóti með stelpu um daginn og var í fyrsta skipti spurður að því hvað limurinn á mér væri stór. Mér brá og vissi eiginlega ekki hvað ég átti að segja, ég hafði ekki spáð í það áður. Hún vildi vita hversu hann væri.

Limurinn á mér er frekar lítill í lafandi stöðu og myndar ekki mikla bungu á buxunum hjá mér og stelpan horfði á bunguna eins og til þess að láta mig sanna að ég væri með nógu stóran fyrir hana. Hún sagðist ekki vilja sofa hjá strákum með lítinn lim.

Ég fór frekar mikið hjá mér því ég var óöruggur með mig, hafði aldrei mælt á mér liminn til að geta svarað þannig að ég svaraði því til að engin stelpa hefði kvartað hingað til. Ég fékk ekki að sofa hjá henni þetta kvöld, en vonast til að geta fengið að sofa hjá henni síðar. Mér líður svolítið illa út af þessu, ég veit ekki hver lengdin á að vera og hvort að flestir séu með stærri lim, ég hef ekki séð lim í reisn nema í klámmyndum,en það er ekkert að marka það, líklega eru þeir nokkuð stórir þar.

Getið þið sagt mér hvað er meðallimur á 25 ára strák/manni og hve stór hann á að vera í lafandi stöðu og hve stór í fullri reisn. Ég tók mig til og mældi minn. Hann er 5.5 cm í lafandi stöðu og ca. 18 cm í fullri reisn. Ég held að hann sé nógu langur í reisn, en frekar lítill í lafandi stöðu. Getið þið sagt mér hvernig ég get stækkað hann í lafandi stöðu, svo að stelpum finnist ekki of lítil bunga og vilji ekki hafa samfarir við mig.

Kærar þakkir.

Svar:

Hér er að mörgu að hyggja.

Stærð limsins er mörgum karlmönnum áhyggjuefni og hefur orðið til þess að margir hafa troðið inn á sig uppvöfðum sokkum eða öðru til að stækka bunguna sem myndast á buxunum þar sem limurinn er fyrir innan. Þetta hefur einnig orðið til þess að margar sagnir hafa orðið til um hve stór meðallimurinn á að vera og ýmsir hafa orðið til þess að birta slík meðaltöl. Þá heyrist og oft rætt um það að limstærðin skipti máli þegar fullnægja á konu. Allt er þetta til hrellingar fyrir karlkynið og hin mesta firra. Þessi umræða og allar þær rangfærslur, sem af henni leiða eru einungis til þess fallnar að gera karlmenn óörugga og þá karlmenn, sem fyrir eru að einhverju leyti óöruggir með sjálfa sig, enn óöruggari. Þannig eykur þessi vitlausa umræða líkurnar á því að karlmönnum mistakist að lifa góðu, gefandi og fullnægjandi kynlífi og þar af leiðandi góðu, gefandi og fullnægjandi kynlífi með konu.

Kona, sem spyr á þennan hátt sýnir fyrst og fremst eigin vanþekkingu á góðu og gefandi kynlífi. Forsendur þær, sem hún gefur sér fyrir kynlífi eru vægast sagt undarlegar. Limstærðin hefur ekkert með það að gera hvort par geti lifað æsilegu, örvandi, gefandi, lostafullu og fullnægjandi kynlífi. Nema í þeim sjaldgæfu tilvikum að limurinn sé, eigum við að segja, innan við 5-7 cm í fullri reisn. Í kringum 1970 las ég frétt í Morgunblaðinu um það að kona í Bandaríkjunum hefði fengið lögskilnað frá manni sínum á þeirri forsendu að limur hans væri of lítill. Samkvæmt frétt blaðsins var limurinn 2,5 cm í fullri reisn. Þetta er auðvitað afar sjaldgæft og nánast óþarfi að reikna með því í umræðunni um hvort limstærðin skipti máli.

Það er alls ekki óalgengt að konur kvarti undan of stórum limum og er það miklu eðlilegri kvörtun, þar sem slíkir limir geta vissulega meitt þær og jafnvel skaðað í hita leiksins.

Stærð, lögun og breidd limsins er svo misjöfn, að útilokað er að búa til einhverja uppskrift að því sem kalla mætti „eðlilegan lim”. Allt frá því að kynþroski hefst og þar til honum líkur er limur mannsins að taka breytingum og ekki auðvelt að sjá á ungum drengjum hvernig endanleg gerð verður.

Þessi umræða um liminn er óeðlileg, hefur ekkert að gera með gott og gefandi kynlíf og leiðir í versta falli til þess að margir verða óöruggir í kynlífi og upp koma kynlífsvandamál hjá pörum, sem þau vel gætu verið án.

Þrátt fyrir það sem ég hef nú sagt og vegna þess að þessi stúlka, sem þú ert að reyna að leggja lag þitt við, hefur augljóslega gert þig mjög óöruggan, ætla ég að segja þér að samkvæmt öllu er limstærð þín mjög eðlileg og jafnvel í góðu meðallagi í reisn, samkvæmt þeim, sem leyfa sér að birta slík meðaltöl. Meira vil ég ekki um það segja.

Að lokum þetta. Stúlkan virðist ekki vera þess virði að reyna meira við hana. Hún hefur þegar gert þig það óöruggan að líklegt er að þú eigir erfitt með að slaka á með henni. Hún er þegar búin að leggja línurnar með það að það sé þitt mál að fullnægja henni, sem er alger vitleysa eins og ég hef oft skrifað um bæði hér á Doktor.is og annars staðar. Þetta mun að öllum líkindum þegar hafa gert það að verkum að þið munuð eiga í erfiðleikum með að lifa góðu kynlífi saman. Láttu hana því eiga sig, í bili a.m.k. og lestu sjálfur meira um kynlíf áður en lengra er haldið.

Gangi þér svo vel með að byggja upp sjálfstrausti&
eth; aftur,
Kveðja,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur