Ég hreyfi mig mikið, en léttist ekkert

Spurning:

Sæl Ágústa.

Mig langar að spyrja um hreyfingu, hvenær dagsins er best að stunda hana? Ég t.d. fer út á hverjum morgni uppúr sjö og geng í 40 mín., fer svo heim og borða morgunmat. Þrisvar í viku er ég í vatnsleikfimi, tveimur kvöldtímum og einum morguntíma. Þess utan er ég farin að stunda golf og þar geng ég mikið eins og gefur að skilja.

En málið er að ég léttist ekkert, ég hef breytt mörgu í mínu matarræði, en ekkert gengur. Ég er 44 ára og mér virðist ég ekkert mega borða þá fitna ég, en þetta vandamál hefur fylgt mér í gegnum tíðina, og ekki lagast það við breytingaaldurinn. En samt geta manni nú fallist hendur þegar ekkert gerist. Ég er að gefast upp.

Mér þætti vænt um ef þú svaraðir þessu, þó ekki væri til annars en að gefa mér smá vonarneista.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Besti tíminn til að æfa er sá tími sem þú munt æfa. Sumir eru morgunhressir aðrir ekki. Sá tími dagsins sem hentar þér best til að æfa er bestur því þá er líklegast að þú látir verða af því. Ef þú léttist ekki er ljóst að þú brennir jafn mörgum hitaeiningum og þú neytir. Þú þarft því að hreyfa þig meira og/eða fækka hitaeiningum sem þú neytir.

Æskilegur hitaeiningafjöldi á dag er u.þ.b. 1400-1600 til að léttast. Varðandi þjálfunina þá myndi ég ráðleggja þér að stunda æfingar sem reyna meira á líkamann en vatnsleikfimi og golf. Það er fínt að halda sér við með því en til að ná árangri þarft þú að ná hjartslættinum upp í æfingunum (verða móð). Kraftmikið sund í 30-40 mín. Hjólreiðar, upp hæðir og hóla, í 30-40 mín, skokk eða kraftganga, þolfimi, spinning eða pallapúl. Þetta eru allt tegundir þjálfunar sem reyna vel á líkamann.

Það er ástæðulaust að fyllast af vonleysi, þú getur náð árangri eins og aðrir ef viljinn er fyrir hendi. Það getur vel verið að þú sért með frekar lága brennslu. Brennslugeta líkamans er einstaklingsbundin. Þess heldur að taka æfingarnar af krafti því þjálfaðir vöðvar brenna hitaeiningum. Þú eykur grunnbrennsluna með því að þjálfa líkamann. Gangi þér vel.

Kveðja, Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari