Ég óttast aukaverkanir Zyban

Spurning:

Sæl.

Ég er búinn að reykja í rúm 8 ár og er búinn að prófa allt til að hætta að reykja s.s. tyggjó, soglyf, nefúða og fleira. Ég var að lesa um Zyban og langar að prófa en ég er bara svo hræddur um aukaverkanir sem ég sá í Lyfjabókinni ykkar, en hér koma þær:

Aukaverkanir: Hiti, munnþurrkur, meltingartruflanir, svefnleysi, skjálfti, skert einbeiting,, höfuðverkur, svimi, geðdeyfð, eirðarleysi, kvíði, útbrot, kláði, aukin svitamyndun, ofnæmisviðbrögð, truflað bragðskyn o.fl. eins og stóð í upplýsingunum hjá ykkur og þar kom fram líka svefnhöfgi, ofskynjanir og meðvitundarleysi og þar sem ég keyri mjög mikið og er á fullu allan daginn í vinnu þá er ég dálitið hræddur við þetta, en hef ég eitthverja ástæðu til að óttast? er þetta eins skelfilegt og sagt er?

Með fyrir fram þökkum.
Reykingarstrompurinn.

Svar:

Kæri Reykingarstrompur.

Til að fá Zyban töflurnar þarf að fara til læknis í viðtal og skoðun, síðan er metið hvort þér hentar að nota Zyban eða ekki. Það eru ekki allir sem geta notað lyfið Zyban, en helstu frábendingar eru að sjúklingar með flogaveiki, lotugræðgi eða lystarstol mega ekki nota það. Einnig þarf að fara vandlega yfir þau lyf sem einstaklingurinn er á fyrir, en ekki má taka hvaða lyf sem er með Zybani. En hvað Zyban töflurnar varðar, þá eru þær ekki eins hættulegar og þú telur upp ef vel er staðið að læknisskoðuninni. Öll lyf geta valdið aukaverkunum og einstaklingsbundið er hvernig lyf verka á hvern og einn. Algengustu aukaverkanir Zybans eru svefntruflanir, munnþurrkur og ógleði. Hins vegar má ekki gleyma hver ávinningurinn er af því að hætta að reykja, en í einni sígarettu eru yfir 4000 eiturefni sem hafa margvísleg áhrif á líkamann og komast flestar aukaverkanir nikótínlyfja þar ekki í hálfkvisti við skaðsemi reykinganna. Kostir Zybans eru jafnframt margir t.d. að það er einfalt í notkun og losar neytandann strax við nikótín, en Zyban er eina nikótínfría lyfið sem til er. Einnig er það lítið eða ekki ávanabindandi. Zyban hjálpar líka til í fráhvarfinu þannig að þau verða í flestum tilfellum ekki eins afgerandi, en slen er hluti af fráhvarfseinkennum nikótíns og gagnast Zyban vel við því þar sem það hefur ákveðna örvandi eiginleika og virkar einnig gegn þunglyndi. Auk þess hefur verið sýnt fram á að Zyban hindrar eða minnkar þyngdaraukningu sem gjarnan gerir vart við sig er fólk hættir að reykja.

En hvað þig varðar kæri reykingarstrompur myndi ég ráðleggja að þú hringdir í Ráðgjöf í reykbindindi – grænt númer 800-6030, og þar yrði farið nánar yfir þína reykingasögu og ráðlagt hvað þú ættir að gera í framhaldinu, eins fengirðu stuðning áfram til að halda út reykbindindið þér að kostnaðarlausu.

Gangi þér vel,
Jóhanna S. Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi.