Ég tek í vörina – hvernig á ég að fara að því að hætta þessu?

Spurning:

Sæll.

Ég sendi fyrirspurn, vegna þess að ég sá enga fyrirspurn, sem svarar spurningu minni. Málið er að fyrir nokkrum árum byrjaði ég að fikta við að taka í vörina. Í dag stend ég allt í einu frammi fyrir því að ég geri þetta yfirleitt á hverju kvöldi (er að reyna annan hvern dag í þessum töluðu orðum).

Ég finn fyrir mikilli tóbaksþörf og tengi þetta yfirleitt við afslöppun og ég verðlauna mig yfirleitt fyrir framan sjónvarpið(sérstaklega þegar fótbolti er í sjónvarpinu).

Mig vantar góð ráð hvernig ég get minnkað þetta og vonandi hætt í framtíðinni. Er eitthvað sem væri gott að gera í staðinn, en að fá sér í vörina, t.d borða eitthvað sérstakt? Þegar maður er að minnka við sig, gerir maður það í þrepum eða….?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Í fyrsta lagi skaltu hætta alveg að nota munntóbakið. Þú skalt trappa notkunina niður eins og þú ert farinn að gera. Til að byrja með skaltu taka 10 daga þar sem þú notar tóbakið annan hvern dag. Því næst 10 daga þar sem þú notar tóbakið bara þriðja hvern dag. Að þessum 20 dögum liðnum skaltu hætta alveg. Athugaðu að þú mátt alls ekki svindla.

Þú getur búist við að fá einhver fráhvarfseinkenni og þá getur verið gott að vera búinn að ákveða hvernig þú ætlar að bregðast við. Einfaldar athafnir eins og að fá sér glas af köldu vatni, bursta í sér tennurnar eða fara í gönguferð hjálpa. Öll hreyfing er af hinu góða því hún minnkar streitu sem oft verður vart við þegar tóbaksnotkun er hætt. Bara það að gera eitthvað dreifir huganum og áður en þú veist er löngunarkviðan liðin hjá. Gott er líka að hafa í huga að þær koma sjaldnar og sjaldnar og vara í styttri tíma. Að mínu mati er neysla þín í því mæli að þetta ætti að geta gengið vel svona.

Ef þú treystir þér illa að gera þetta svona, skalt þú hafa samband við okkur hjá Ráðgjöf í reykbindindi- 800-6030- við getum þá sniðið fyrir þig áætlun þar sem þú myndir hætta tóbaksnotkun með aðstoð nikótínlyfja. Úr þeim færð þú í öllu falli bara nikótín, en ert laus við öll hin skaðlegu efnin úr tóbakinu.

Mig langar að benda þér á fróðlega grein á reyklaus.is eftir Rolf Hansson tannlækni um munntóbak.

Gangi þér vel og hafðu endilega samband ef þig vantar frekari upplýsingar.
Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í reykbindindi.