Ég var beitt kynferðisofbeldi og líður illa

Spurning:

Sæl.

Mig langar að fá smáaðstoð frá ykkur. Þannig er að lífið mitt er ónýtt! Ég er rétt að verða 16 ára gömul og hef 5 sinnum lent í nauðgun af 4 einstaklingum, en aldrei alvarlega leitað mér hjálpar. Mamma hefur sent mig oft til sálfræðings og til barna- og unglinga geðlæknis en ég hef aldrei viljað opna mig neitt ég get það ekki, ég skammast mín svo mikið, vil ekki að fólk viti það, mér finnst það svo skammarlegt.

Ég get ekki mætt í skólann þannig ég sit bara heima alla daga og geri ekki neitt. Ég vil enga hjálp allavega ekki strax, ég þori ekki að tjá mig augliti til auglitis við manneskju.

Það eina sem ég get gert er að skrifa eitthvað gegnum tölvu til að ég opni mig. Ég þori alveg að tjá mig í gegnum tölvu því þá veit enginn hver ég er en að segja frá einhverjum sem situr á móti mér get ég hreinlega ekki. Þetta er alltof skammarlegt. Ég er að taka inn Paroxat og phenergan en mér finnst hvorugt virka. Ég veit ekki hvað er að mér en það er greinilega mikið fyrst allir eru svona nervös í kringum mig útaf mér.

Kannski þú getir hjálpað að reyna að skilja það ef ég reyni að útskýra það sem best. Ég er mjöf eirðalaus, t.d. get ég aldrei horft á heila bíómynd í einu. Ég horfi alltaf í svona ca. 15 mín. svo er ég farin. Mér finnst rosalega að fólk glápi á mig og geti lesið hvað hefur komið fyrir mig. Mér finnst líka sem ég sé að skemma fyrir öllum sem eru mér nákomnir og hef þess vegna oft reynt að fremja sjálfsmorð en aldrei tekist ég hef einu sinni samt legið uppá spítala eftir að ég skar mig. Síðan er það líka að ég vil helst ekki verða nákomin neinum og forðast það því ég er viss um að ég eigi eftir að gera viðkomandi eitthvað. Ég sé oft engan tilgang með lífinu og finnst ég vera óhæf og einskis nýt. Segir þetta eitthvað? Ég veit ég er þunglynd en er þunglyndi svona slæmt? Stundum er ég hrædd um að ég sé geðveik og kem þá ekki nálægt neinum í marga klukkutíma svo ég sé ekki vond. En ég vona innilega að þú getir svarað mér.

Ein í rúst.

Svar:

Sæl vertu og takk fyrir tilskrifið.

Þú sýnir heilmikið frumkvæði með því að skrifa og óska eftir hjálp og það er góðs viti. Þú hefur sjálf fundið út að það henti þér að skrifast á við einhvern, þannig haldir þú þeirri fjarlægð sem þér virðist nauðsynleg. Endilega gerðu meira af þessu og þú getur skrifað okkur beint hjá Stígamótum, við erum í bréfaskriftum við fjölda fólks sem valið hefur þessa leið. Þú getur skrifað beint á runa@stigamot.is og ég mun svara eins fljótt og ég get. En það er líka mikilvægt að líðan þín virðist tekin alvarlega og að allir virðast boðnir og búnir til þess að styðja þig.

Lýsingar þínar á því sem þér hefur verið gert og lýsingar á líðan þinni eru ekki fagrar og mér finnst ekki undarlegt að þér hafi liðið illa. Slíkar lýsingar heyrum við oft og iðulega, lýsingar á mikilli skömm, þunglyndi, einangrun og sjálfsmorðshugsunum. Þær eru dæmigerðar fyrir þá sem beittir hafa verið grófu kynferðisofbeldi. Ég vildi að ég ætti einhver einföld ráð handa þér, en þau eru því miður ekki til.

Ef við skoðum sérstaklega hvað þú segir um skömm þína, þá langar mig að benda þér á hversu ósanngjarnt það sé að þú sitjir uppi með skömm fyrir eitthvað sem aðrir gerðu þér. Nauðgun er ekki nauðgun nema hún sé framin gegn vilja þess sem fyrir henni verður. Þú segir að þér hafi verið nauðgað – ekki bara einu sinni, heldur fimm sinnum. Það þýðir að aðrir frömdu á þér mjög alvarlegan glæp, gegn vilja þínum. Veistu að nauðgun er samkvæmt lögum alvarlegasti glæpur sem framin er á konum á eftir morði? Það er alveg sama við hvaða aðstæður nauðgun á sér stað, hún er alltaf eingöngu á ábyrgð þess sem fremur hana, ekki þess sem fyrir henni verður. Mundu það að hvar sem þú varst, með hverjum svo sem þú varst og í hvaða ástandi sem þú varst, þú berð ekki ábyrgð á nauðgununum. Ef þér tekst að skilja það mun það vera ein af forsendunum fyrir því að þér geti farið að líða betur.

Ég ráðlegg þér eindregið að halda áfram að skrifa, hvort sem þú velur að skrifa mér persónulega, eða einhverjum öðrum, það hjálpar að setja orð á tilfinningar þínar og líðan. Ég ráðlegg þér líka að leitast við að þiggja alla þá hjálp sem þú treystir þér til að þiggja. Ef þú sjálf kýst að koma til okkar á Stígamótum, ertu velkomin, en þú verður sjálf að ákveða leiðirnar sem þú ferð. Líf þitt er ekki ónýtt, það kemur dagur eftir þennan dag og ef þú heldur áfram að leita þér hjálpar eins og þú gerðir með bréfinu þínu mun þér smátt og smátt fara að líða betur. Gangi þér sem allra best.

Rúna Jónsdóttir, Stígamótum
s. 800 6868