Eigið þið ráð vegna naglasvepps?

Spurning:
Í 12 ár hef ég átt við naglasvepp að stríða í fingurnöglum. Þetta lýsir sér þannig að nöglin losnar frá skinninu og öll óhreinindi komast inn fyrir miðja nögl þannig að oft hefur síðan grafið í öllu saman. Þetta er virkilega vont og óþægilegt. Einnig eru neglurnar ljótar í útliti þegar þær vaxa fram.
Í 12 ár hef ég ekki getað verið án naglalakks því ég vil ekki að neinn sjái neglurnar eins og þær eru. Í dag eru þetta 8 neglur sem eru sýktar. Í fyrra fékk ég Terbisil í 1 mánuð en eftir svo stuttan tíma sá ég enga breytingu. Læknirinn sem sá á mér hendurnar þá sagði að ég gæti fengið lyfjakort út á þetta því ég þyrfti að taka þetta í lengri tíma en apótekarinn taldi að það væri vitleysa.
Ég verð að fá lækningu við þessu því ég líð fyrir þetta endalaust og í dag er ég ekki nema 37 ára. Fyrir nokkrum árum þá bjó ég í Danmörku þá urðu allar sýktu neglurnar grænsvartar og þær voru það í heilt ár. Það var skelfilegt. Þá fór ég til læknis en hann vissi ekki hvað þetta var. Svo ekkert var gert. Stóru táneglurnar eru líka ljótar og er mikil hvít skán undir þeim. Þótt þessi sýking sé í fingurnöglunum þá vaxa þær virkilega hratt en eru vissulega ólögulegar þar sem ekkert hald er í þeim. Því bið ég nú um eitthvað töfrasvar og helst sem fyrst svo eitthvað verði gert í málinu. Kærar kveðjur

Svar:
Sveppasýking í nöglum er ekki eingöngu til ama vegna útlitsins heldur geta sveppasýkingarnar rutt brautina fyrir ýmsar aðrar sýkingar. Auk þess eiga sjúklingar sem eru með sveppasýkingu í nöglum á fingrum mjög erfitt með að vinna fíngerða vinnu.

 

Sveppasýkingar á tánöglum valda oft óeðlilegri þykknun, sem getur valdið þrýstingi í skónum. Hann getur svo valdið því að gangur verður sár og hreyfifærni minnkar.

 

Ég ráðlegg eindregið að leita til sérfræðings í húðsjúkdómum varðandi þetta vandamál.

 

Einn mánuður á terbinafin lyfjum er ekki nægur tími til að sjá hvort lyfið er að gera gagn. Það þarf a.m.k. 3ja mánaða lyfjagjöf.

 

Varðandi lyfjakort er ég ekki nógu kunnug reglunum en tel að eftir 2 skammta megi fá lyfið afgreitt út á lyfjakort til niðurgreiðslu hafi áður farið fram ræktun til sönnunar á sveppasýkingu.

 

Kv.

Margrét Jónsdóttir, fótaaðgerðafræðingur