Spurning:
Sæll.
Ég var að velta fyrir mér með krabbamein í eistum. Mig langar að vita um helstu einkenni o.þ.h. Ástæðan er sú að annað eistað á mér er stærra en hitt, en ég veit líka að það er oft þannig.
Svar:
Algengasta einkenni eistnakrabbameins er fyrirferð í eista (90%) og helmingur karla með þennan sjúkdóm finnur einnig fyrir verk í eistanu. Einkennin eru oft lúmsk og margir draga lengi að leita læknis. Eistnakrabbamein er tiltölulega sjaldgæft mein og það greinast innan við 10 tilfelli á ári á Íslandi. Aðrir sjúkdómar, og þá sérstaklega vatnshaull (sem er góðkynja vökvasöfnun umhverfis sjálft eistað), eru mun algengari ástæða fyrirferðar í eista og er auðvelt að greina.
Ef þér finnst annað eistað stærra eða vera stækkandi skaltu endilega láta lækni skoða þig sem fyrst og fá á hreint hvað það er sem veldur stækkuninni. Mundu að það er líklegast að ekki sé um krabbamein að ræða en mikilvægt er að fá það staðfest af lækni, t.d. þvagfæraskurðlækni.
Tómas Guðbjartsson, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og hjarta- og lungnaskurðlækningum, Brigham Harvard sjúkrahúsinu í Boston, Harvard Medical School.
Minnt er á að hjá Krabbameinsráðgjöfinni er hægt að fá ýmsar upplýsingar um krabbamein. Síminn er 800 40 40 kl. 15-17 virka daga. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir í tölvupósti: 8004040@krabb.is