Einstæð með ofvirkan dreng

Spurning:

Drengurinn minn sem er 6 ára var greindur ofvirkur, með athyglisbrest, og hvatvísi fyrir ári síðan. Hann hefur verið á Ritalini síðan í ágúst í fyrra. Eftir hann byrjaði á því gátum við fyrst farið að lifa venjulegu lífi. Á meðan hann er á ritalininu er hann afslappaður, getur einbeitt sér, á góð samskipti við aðra krakka og er í alla staða mjög meðfærilegur, ánægður og yndislegt barn.

Áður er Ritalinið fer að virka á morgnana og þegar það hættir að virka seinni partinn missir hann mjög oft alla sjálfstjórn. Stundumm þegar allt er komið úr böndunum og ekkert virðist geta stoppað hann, öskra ég á hann eða fer ég í algjörri örvæntingu inn í svefnherbergi mitt og skríð undir sæng með algjört samviskubit yfir að geta ekkert annað gert. Að reyna að tala hann til eða leiða athyglina að öðru er mjög erfitt. 100% athygli er það sem hann þarf og ekkert annað ( Ég tek það fram að ég er einstæð og því engin til að leysa mig af.) Samt er eins og þessi athöfn að fara undir sæng sé stundum það eina sem dugar til þess að sonur minn stoppi og kemur þá hlaupandi og segir mamma mamma fyrirgefðu fyrirgefðu.

Það sem verra er að ég er farinn að nota þetta ráð æ oftar til þess að fara ekki að hækka róminn. Mér finnst svo hræðilegt að þurfa að gera þetta og veit að þetta er ekki rétt. Ég nota umbunarkerfi við ýmislegt eins og að klæða sig, bursta tennurnar og finnst ég varla geta bætt við það í bili. Þetta gerist aðalega við þessa óendanlegu athyglisþörf.

Þegar hann kemur með vini sína eftir skóla gengur allt vel fyrst en þegar það fer að draga úr virkninni á Ritalininu þá kaffærir hann félagana sína í algjörum yfirgangi. Síðast í gær lét ég vin hans fara heim því allt var að fara úr böndunum, hann varð þá svo reiður að hann kastaði símanum í gólfið (sem hann hefur oft gert áður) og eyðilagði hann endanlega. Ég brást þannig við að verða mjög reið og setti hann inn í herbergi í klukkutíma. Mér finnst erfiðast að vita hvenær ég er að gera raunhæfar kröfur á hann, hvenær á ég að taka tillit til að hann sé ofvirkur og gerir sér ekki grein fyrir hvað hann gerir. Eftir svona atvik er hann mjög fljótur að jafna sig og hegðar sér eins og honum sé alveg sama hvað hann gerir. Mér finnst ég mjög oft fyllast miklum kvíða varðandi framtíð hans. Hvernig verður þetta þegar hann kemur á unglingsárin og fer kannski að neita að taka inn Ritalinið eða þegar hann fer að vera úti á kvöldin þegar lyfið verkar ekki lengur. Einnig er það ógnvekjandi að hugsa til þess að hann þurfi að vera á lyfjum alla sína ævi. Hann tekur 3 töflur daglega núna og missir töluverða matarlyst þegar hann er á lyfjunum.

Mér þætti vænt um að fá uppörvandi svar frá einhverjum sérfræðingi.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Þú biður um uppörvun vegna sonar þíns sem hefur fengið greiningu um ofvirkni með athyglisbresti og hvatvísi. Í bréfinu nefnir þú mikla athyglisþörf hans og köst, umbunarkerfi sem þú notar, dæmi um þína eigin hegðun og áhyggjur þínar af framtíð drengsins, ásamt erfiðleikum þá tíma dagsins sem lyfið er ekki virkt í honum.

Ef við snúum okkur fyrst að þér sjálfri. Nú veit ég ekki hvar á landinu þú býrð, hvernig vinnnutíma þínum er háttað, eða hvaða fjárhagslega svigrúm þú hefur. En fyrst þú ert einhleyp þá er mikilvægt fyrir ykkur bæði mæðginin að þú sért stundum leyst af þannig að þú getir gert eitthvað skemmtilegt fyrir sjálfa þig, hvílt þig og varið tíma þínum í eitthvað sem er nærandi fyrir þig. Ég vona að þú getir samið við föður drengsins um eitthvert fyrirkomulag í þessu sambandi. Ef svo er ekki, og ef þú átt ekki vinafólk sem mundi gæta hans einstöku sinnum, eða ættingja – krökkum sem eru eins og þú lýsir syni þínum líður oft mjög vel hjá afa og ömmu og sækjast í að vera hjá þeim – þá er spurning hvort þú ættir ekki að hafa samband við ráðgjafa hjá félagsþjónustunni í því sveitarfélagi sem þú býrð til að athuga hvort ekki er hægt að aðstoða þig eitthvað með einstaka hvíldarhelgar.

Nú er það reynsla margra mæðra sem ekki eru vanar því að komast neitt frá, að þegar stóra stundin loksins rennur upp þá vita þær ekki almennilega hvað þær eiga að gera eða hvernig, eru alltaf með hugann við heimilið og finna engan til að deila deginum með sér. Tómstundir og félagslíf er eitthvað sem fólk byggir upp og til þess þarf tíma.

Þannig að ef einhverjir ofangreindra aðila geta gætt drengsins fyrir þig, vertu þá búin að undirbúa daginn ÞINN mjög vel og binda alla lausa enda fyrirfram svo allt gangi upp og eftir áætlun.

Nú reikna ég fastlega með því að þú sért í sambandi við lækninn sem skrifaði upp á lyfin fyrir drenginn og að þið sonur þinn hittið hann öðru hverju. Ef svo er ekki, þá hvet ég þig til að tala við lækninn í símatíma svo þú getir rætt við hann um þær áhyggjur sem þú nefnir og lúta að lyfjunum og framtíð sonar þíns. Ef þú telur að fínstilla þurfi lyfjagjöfina nánar hjá drengnum ættirðu
að lýsa því fyrir lækninum og væntanlega panta tíma hjá honum í framhaldinu, þannig að hann geti skoðað strákinn og rætt málið nánar við þig.

Þegar unnið er að málum einstakra barna sem einhverra hluta vegna láta illa að stjórn, þá er sú skoðun almenn að auk lyfjagjafarinnar þurfi einnig að hlúa vel að heimilinu og skólanum og hafa um það þétt samstarf og vissan takt. Í því sambandi hefði verið mjög gagnlegt að fá einhverjar upplýsingar frá þér um það hvernig stráknum gengur í skólanum. Er hann eitthvað farinn að lesa og skrifa? Ég hvet þig til að fylgjast strax vel með því hvernig honum gengur að komast af stað í lestri og ritun og draga það ekki að fá viðeigandi aðstoð í skólanum fyrir hann ef þess reynist þörf.

Það má e.t.v. segja að lyfjagjöfin skapi þær aðstæður að auðveldara sé að ná til barnanna og kenna þeim ýmsa lífsleikni og annað sem þau þurfa að ná valdi á en erfitt reynist að kenna þeim þegar hegðunin er mjög trufluð. Það getur því skipt sköpum um farsæla framtíð þeirra að þau tímabil sem þau eru á lyfjunum séu jafnframt nýtt mjög vel til annarra verka, þ.e. til að kenna þeim aukna sjálfsstjórn. Ef þú getur einbeitt þér að því verkefni í dag, ertu að vinna í haginn til seinni tíma fyrir son þinn þannig að líklegra verður en ella að honum farnist vel.

Þetta leiðir okkur að því sem þú nefndir í bréfinu, þ.e.:

1. köstum sonar þíns, kröfum hans um óskipta athygli og viðbrögðum þínum við því
2. notkun þinni á umbunarkerfi og
3. spurningunni um hversu miklar kröfur þú getur gert til hans.

Skoðum þetta aðeins nánar.

1. Köst, athygli og viðbrögð þín.

Þú segir: „… Ég … setti hann inn í herbergi í klukkutíma…”,

og

„ … fer inn í svefnherbergi mitt og skríð undir sæng ….það eina sem dugar til þess að sonur minn stoppi… að ég er farinn að nota þetta ráð æ oftar…”

Nú getur vel verið að sonur þinn hafi bara fundið sér eitthvað skemmtilegt að dunda sér við þegar þú lést hann dúsa inni í herbergi, þannig að þótt aðgerðin hafi verið viss léttir fyrir þig þá er ekki víst að hún hafi verið refsandi fyrir hann. Nú veist þú hvaða tíma dags sonur þinn er viðkvæmastur og við hvaða aðstæður það er sem þú þarft sérstaklega að vera á verði. Það hjálpar ef þú getur hagað aðstæðum þannig að það keyrist ekki upp í síendurtekin vandamál og ef þú getur hlutast til um vandamálin aðeins fyrr í ferlinu ef þau eru í uppsiglingu, þannig að það bíði ekki þangað til þú ert sjálf orðin reið og allt fer úr böndunum.

Til að hafa drenginn góðan getur þú gert margt annað en að skríða undir sæng.

Prófaðu til dæmis að taka hann í fangið og knúsa hann þegar hann er góður. Þess vegna oft á dag. Krakkar sem eru eins og þú lýsir syni þínum eru oft mjög blíð og jafnvel svolítið meir, en jafnframt uppátækjasöm, skapandi og skemmtileg. Það skiptir máli að það sé horft á það. Þeim líður vel þar sem þau mega spreyta sig, þar sem þau finna ró og hlýju, og þau bókstaflega þrífast á hrósi og þurfa mikið af því.

Ég reikna ekki með að þú vinnir vaktavinnu og sting upp á því að þú skapir ykkur þær aðstæður að sonur þinn hafi athygli þína óskipta um stund nokkrum sinnum á hverjum einansta degi. Reyndu það endilega – þið komið bæði til með að njóta þeirra og þá færðu líka mörg tækifæri til að hrósa honum. Það liggur beinast við að þú sýnir skólagöngu hans áhuga og að þú setjist hjá honum þegar þið eruð bæði komin heim og hann sýni þér það sem hann var að gera í skólanum.
Nú, kannski finnst syni þínum gaman að teikna og mála? Á hann pappír og liti? Hann gæti líka málað á steina og spýtur. Langar hann til að læra að leika á hljóðfæri? Hefðir þú (og skólinn?) tök á því að aðstoða hann við það? Stundirnar sem þið gætuð átt saman væru t.d. 15 mínútur á hverjum degi yfir einhverri listiðkan hans. Taktu ákveðinn tíma dagsins frá fyrir þær og hafðu þá ekki kveikt á útvarpi, sjónvarpi eða myndbandi. Sumum gefst einnig vel að kippa símanum úr sambandi rétt á meðan.

Það eru fleiri stundir sem þið getið átt saman. Gerðu það að reglu að setjast til borðs með syni þínum við morgunverðarborðið (jafnvel þótt þú borðir ekkert sjálf og hann sé lystarlítill) og einnig kvöldverðinn sem þú eldar heima og leggur fallega á borð. Ekki skamma hann við matarborðið en reyndu að tala um eitthvað skemmtilegt, hvettu hann til að segja þér frá því sem á daga hans drífur og hlustaðu á hann með óskiptri athygli.

Ef hann hefur ekki ofnæmi fyrir mjólkurafurðum eða fiski, athugaðu þá hvort þú hafir ekki fisk og skyr a.m.k. tvisvar í viku, gefðu honum lýsi daglega og gættu þess að hann fari alltaf eitthvað út að leika sér. Ef ekki eru aðstæður til þess við húsið að hann geti farið einn út og leikið sér við aðra krakka, skrepptu þá me&e
th; honum út á róló. Manstu hvað er gaman að leika sér í sandi?

Þær geta einnig orðið drjúgar stundirnar í þessu samhengi ef þú leyfir honum að „hjálpa” þér svolítið. Hann gæti t.d. lagt á borðið, blandað salatið, þurrkað hnífapörin, tínt saman sokkaplögg úr þvottinum eða brotið saman nærfötin sín og þið getið spjallað saman á meðan.

Við þessar stundir getur þú bætt fimm mínútum á morgnana þegar þú vekur hann. Sestu á rúmstokkinn, klappaðu honum aðeins og kysstu hann og bjóddu honum góðan dag. Það getur haft mjög góð áhrif á hann áður en hann tekur lyfin. Sama gildir á kvöldin. Kelaðu þá svolítið við hann og taktu nokkrar mínútur til að lesa eða raula fyrir hann eða segja honum sögu. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þú kunnir ekki margar sögur – krökkum finnst gaman að heyra sömu söguna aftur og aftur. Ef honum finnst notalegt að þú nuddir hann aðeins eða klórir á honum bakið, þá skaltu gera það.
Ef þú nærð þessum stundum með honum á virkum dögum þá kemur ykkur báðum til með að líða betur og þú verður ekki eins þreytt og kvíðin og þú lýsir. Auk þess verður strákurinn þinn ekki eins kröfuharður á öðrum tímum og það verður auðveldara fyrir þig að fylgja því eftir við hann að þú eigir líka þínar prívat stundir. Til að ná reglu á þessum samverustundum finnst mörgum gagnlegt að semja stundartöflu fyrir sjálfan sig og festa upp á ísskáp.

Um helgar yrði hvíld í því að hann væri stundum með öðru fólki, en þið ættuð einnig að skapa ykkur skemmtilegan frítíma saman, sá tími þarf ekki að kosta mikið. Þú gætir t.d. spilað við hann eða kennt honum mannganginn. Ef þið eigið hjól og hjálm, þá er alveg upplagt að fara út og hjóla svolítið. Þú gætir líka kennt honum að sippa. Drífið ykkur í sund eða í göngutúr þar sem þú getur leyft stráknum að hlaupa og príla svolítið. Krökkum finnst einnig oft mjög gaman að alls kyns jafnvægisæfingum eftir gagnstéttarstrikum, spýtum og grindverkum. Leyfðu honum það ef það skaðar hann ekki. Þú getur haldið í hönd hans á meðan. Ef þið búið við sjó þá getið þið t.d. gengið niður í fjöru og fleytt kerlingar eða safnað fallegum steinum. Og nú er rétti árstíminn til að fylgjast með því hvaða farfuglar eru komnir og hvaða blóm eru að skjóta upp kollinum. Svo má alltaf leggjast í grasið og horfa á þær kynjamyndir sem skýin taka á sig. Þið gætuð sagt hvort öðru hvað þið sjáið og jafnvel samið smá ævintýri. Því fleiri notalegar stundir sem þið getið átt saman, því minni tími verður fyrir hinar –þær ýtast smám saman út af borðinu.

2. Umbunarkerfið.

Það hefði verið mjög gagnlegt að fá lýsingu á þessu umbunarkerfi sem þú segist nota. Mér skilst að það sé í gangi á morgnana og á kvöldin, en þrátt fyrir það þá séu það einmitt þeir tímar dagsins sem sonur þinn er erfiðastur. Einnig segir þú:

“… Ég nota umbunarkerfi við ýmislegt eins og að klæða sig, bursta tennurnar og finnst ég varla geta bætt við það í bili..”.

Útfærsla á svokölluðum umbunarkerfum getur verið margvísleg. Ég fékk það á tilfinninguna við lesturinn að þetta kerfi virkaði ekki almennilega eða væri allt of flókið og þungt í vöfum fyrir þig. Vel hannað kerfi svínvirkar og þá mundir þú tæplega hugsa þig tvisvar um að halda áfram með það og tengja það fleiri athöfnum í fari drengsins.

Umbunarkerfi eru verkfæri sem eiga að vera gagnleg til að kenna nýja og betri hegðun; þá hegðun sem við viljum sjá meira og meira af. Svona eins konar hegðunar-tjakkur. Til að brúa tímabilið sem getur orðið milli þeirrar hegðunar sem verið er að kenna og væntanlegrar umbunar eru oft notuð merki, s.s. broskarlar, stjörnur o.þ.h. sem barnið safnar og getur síðan skipt út fyrir eitthvað eftirsóknarvert þegar ákveðnum fjölda merkja er náð, helst innan tiltekinna tímamarka. Svona kerfi þurfa að lúta tilteknum reglum svo þau séu ekki bara orðin tóm. Ég ætla að nefna tvær reglur hér:

Hin fyrri er sú að umbunin eða merki um hana (t.d. stjarna eða broskarl) þarf að koma strax og örugglega í kjölfar þeirrar athafnar sem þú ert að kenna drengnum. Með öðrum orðum sagt, merkið sem sonur þinn vinnur sér inn með því að bursta í sér tennurnar verður að parast örugglega við þá athöfn. Merkin eru notuð til að auðvelda þessa tengingu milli heðgunar og umbunar. Ef merkið kemur seinna er hætta á því að það tengist einhverri annarri athöfn sem á undan því fór og hafi áhrif á hana. Og ef umbunin eða merkið slysast til að tengjast einhverri hegðun sem þú ert að reyna að slökkva og örvar hana, þá getur reynst erfitt að stjórna stráknum.

Hin reglan sem ég ætla að nefna er þessi: Samkvæmt orðanna hljóðan fela umbunarkerfi í sér umbun, ekki refsingu eða dóm. Ef kerfið sem þú notar felur í sér einhverja refsiþætti, til dæmis þá að strákurinn missi merki sem hann hefur þegar unnið sér inn brjóti hann af sér, þá er mjög líklegt að það framkalli mikil reiðiköst og geri ykkur æði erfitt fyr
ir einmitt þegar hann á að vera að læra aukna sjálfstjórn.

Ef stákurinn brýtur mikið af sér þrátt fyrir kerfið, þá er líklegt að í því séu einhver refsiáhrif og að það sé ekki nægilega þétt. Skrefin geta til dæmis verið of stór hvoru tveggja í kröfum og tíma. Dæmi: Kerfi sem segir að strákur fái fjóra broskarla og að fara út að leika sér klukkan 16:00 ef hann hefur ekki notað blótsyrði heima hjá sér að morgni, borðað morgunmatinn og hádegismatinn og verið útistöðulaust í skólanum allan daginn, mun að öllum líkindum ekki virka og auk þess gera illt verra vegna reiðinnar sem mun birtast yfir því að fá ekki að fara út af því að hann náði ekki kröfunum. Straff er sem sagt ekki eins gagnlegt kennslutæki og umbun. Þú þarft líka að gæta þess að gera ekki kröfur sem útlokað er fyrir hann að ná og setja ekki reglur sem skapa þér óþarfa erfiðleika og sem þú getur ekki framfylgt sjálf.

Þú getur auðveldlega athugað hvort kerfið hjá þér virkar eða ekki. Búðu til svona töflu og merktu inn á hana með prikum hversu oft drengurinn gerir það sem hann á að gera.

 Sunnud.Mánud.Þriðjud.Miðvikud.Fimmtud.Föstud.Laugard.Bursta tennur       Háttar sig       Klæðir sig       

Ef engin breyting er á hegðuninni, þ.e. ef hann hegðar sér ekki oftar betur en áður, þá virkar kerfið ekki. Ef svo er og ef það lýtur ekki þeim reglum sem ég nefndi hér að ofan, hafðu þá samband við þann sem setti það upp fyrir þig, og fáðu kerfið stillt af. Það er eins með umbunarkerfin og með lyfin, það þarf að fylgjast vel með hvernig þau virka á hegðunina og fínstilla þau samkvæmt því.

3. Kröfur

Þú veltir því fyrir þér hvaða kröfur þér sé óhætt að gera til hans og hvort þú þurfir ekki að taka tillit til þess að hann hefur greinst ofvirkur með athyglisbrest og hvatvísi. Jú, þú skalt endilega taka tillit til þess, en ekki með þeim hætti að þú sláir eitthvað af þeim væntingum sem þú gerir til hans. Settu markið hátt fyrir hans hönd og hlúðu vel að honum með þeim hætti sem hér hefur verið fjallað um. Ég ráðlegg þér frá því að hugsa málið sem kröfur og mörk sem þú verðir að setja honum. Það er mjög ólíklegt að hann vilji láta setja sér einhver mörk og mun taka upp á ýmsu til að brjótast undan þeim, og það mun kalla á refsingar og mikið álag og óskemmtilegt fyrir ykkur bæði.

Hugsaðu það frekar sem verðug og eftirsóknaverð markmið sem þú ert að hjálpa honum með að feta sig upp að. Skilgreindu markmiðið vel þannig að það fari ekki á milli mála hvað hann á að geta gert, og síðan kennir þú honum það sem þarf sem miðar honum í áttina að þessu marki. Þú byggir á því sem hann getur þegar og byrjar þar. Þetta verður eins konar tröppugangur, hvert nýtt skref byggist ofan á það skref sem hann tók síðast og er undanfari þess skrefs sem hann mun taka næst. Gættu þess að fara ekki fram úr honum, en styddu vel við með því að skapa góðar aðstæður og með því að bregðast vel við öllu sem miðar í rétta átt. Ef hann á mikið eftir ólært í þeirri leikni sem þú ert að kenna, þá skaltu endilega setja nokkur áfangamarkmið á leiðinni, eins konar stigapalla. Þar getur þú tekið á móti honum og glaðst með honum yfir þeim áfangasigri.

Með öðrum orðum sagt, þú elur hann bara upp eins og hvern annan sex ára strák, markmiðin eru þau sömu, en það verður líklega heldur meiri og þéttari vinna fyrir þig en gengur og gerist, amk til að byrja með. Umfjöllunin hér að ofan er til að hjálpa þér við verkið. Mörgum finnst stuðningur í því að hitta foreldra annarra barna sem fengið hafa hliðstæða greiningu. Ég ráðlegg þér að hafa samband við Foreldrafélag misþroska barna og athuga hvort þau geti ekki vísað þér á slíkan hóp.

Þetta svar er að vísu orðið nokkuð langt, en reynsla mín í starfi er sú að það eru svo ótal margir sem eru að glíma við það sama og þú lýsir og þeir ættu að finna eitthvað sem gagnast þeim í þessari umfjöllun. Ég vona að þér hafi fundist hún uppörvandi og gagnleg, og að hún gefi þér ýmsar nýjar hugmyndir um hvað þú getur gert til að þér og syni þínum líði betur.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.