Eiturlyf áður fyrr – barneignir nú?

Spurning:
Konan mín neytti hinna ýmsu eiturlyfja fyrir rúmu einu og hálfu ári en hefur alfarið hætt því og mig langar að vita hvort að þetta gæti haft einhver áhrif á barneignir. Eiturlyfin sem hún tók hin voru af öllum mögulegum gerðum, en þetta var nokkurra ára tímabil sem hún var í þessu.

Svar:
Ég get því miður ekki svarað þessu með neinni vissu.
Ég sé ekki að notkun þessara efna fyrir einu og hálfu ári ætti að hafa teljandi áhrif á þungun í dag. Almennt gildir það að þegar efni er horfið úr líkamanum hefur það engin áhrif á fóstur eða þungun. Þó svo að efnin kynnu að hafa haft varanleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu þess sem hefur neytt þeirra þýðir það ekki að þau séu ennþá til staðar í líkamanum.

Ég mæli með að leitað sé til sérfræðinga á þessum sviðum til að fá fullvissu um þetta atriði (SÁÁ eða kvensjúkdómalækni)

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur