Sælar elsku fagfólk….
Mig vantar svo svar við afhverju ég er með endalaus þaglát þ.e.a.s. skiptir engu hvort ég sé nýbúin að pissa eða ekki..hvort ég sé að reyna á mig eða ekki… dæmi ég er nýbúin að pissa fer svo út að labba renn til og þá missi ég þvag… ef ég hnerra eða hósta það sama…þegar við parið njótum ásta þá lekur… mjög kvimleitt ástand… ég skilaði inn þvagi í ræktun og ekkert kom út úr því… alltaf sama svarið… getið þið mögulega sagt mér hvað er að…
Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina,
Þú ert alls ekki sú eina sem þjáist af þvagleka og þeim vandamálum sem honum fylgja en talið er að allt að 50.000 íslendingar séu með þvagleka. Meirihlutinn eru konur. Það geta lekið dropar í buxurnar við hósta, hnerra eða íþróttaiðkun. Aðrir missa þvag vegna þess að þvaglátaþörfin er svo sterk og skyndileg að þeir ná ekki á salerni í tæka tíð.
Ég vil benda þér á að lesa þessa greinar hér og hér um þvagleka. Lýsing þín á ástandi þínu passar vel við áreynsluþvagleka. Mikilvægasta meðferðin við áreynsluþvagleka er að styrkja grindarbotnsvöðvana.
Grindarbotnsæfingar eru viðurkennd og áhrifarík leið til að vinna gegn þvagleka. Mikilvægt er að ná sambandi við þessa vöðva og slaka á kvið og rassvöðvum á meðan. Grindarbotnsæfingar byggjast á því að herpa saman vöðva grindarbotnsins saman mörgum sinnum á dag en þá styrkjast vöðvarnir smám saman og veita betri stuðning við þvagblöðru og þvagrás. Þessar æfingar má gera hvar og hvenær sem er, við uppvaskið eða í vinnunni. Oft er mjög góður árangur af slíkum æfingum. Er þú ert ekki viss með hvaða vöðva á að herpa, er til dæmis hægt að prófa að stöðva þvagbununa í miðjum þvaglátum. Sumir þurfa þó nánari leiðbeiningar eða aðstoð.
Sumir eru einnig með truflun á starfsemi þvagblöðrunnar og þurfa á blöðruþjálfun að halda. Slík þjálfun felur meðal annars í sér fræðslu og reglulegar salernisferðir. Algengt er að slappur grindarbotn og truflun á blöðrustarfsemi fari saman og vilja sumir læknar þess vegna beita saman grindarbotnsþjálfun og blöðruþjálfun.
Til eru ýmis konar hjálpartæki fyrir grindarbotnsþjálfun, meðal annars tæki til að styrkja vöðvana með rafertingu, og geta slík tæki verið gagnleg fyrir suma. Meðferð með hormónum (östrógenhormónum) getur einnig verið gagnleg eftir tíðahvörf og þessi hormón geta minnkað eða jafnvel læknað þvagleka.
Ég ráðlegg þér að ræða þetta við þinn heimilislækni eða hitta þvagfæralækni til að fá nánara mat á vandamálinu og ráðleggingar sem henta þér.
Gangi þér vel,
Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur