Endist of lengi í kynlífi?

Spurning:
Ég á í pínulitlum vandræðum með það að ég endist alltof lengi í kynlífi. Ég er kanski búinn að ,,hamast" á stelpunni í 5-6 tíma eða svo án þess að ég fái það einu sinni þá er konan oftast alveg búin á því orðin aum í henni eftir þennan tíma. Hvað á ég að gera í þessu hvað er hugsanlega að? Ég er ekki með nein stinningarvandamál, það er ekkert mál með að fá stinningu, en það er eins og ég nái stinningu og þá ekki söguna meir bara svona nánast eilífðarvél. Ég er að missa mig alveg yfir þessu. Ég þori varla að stunda kynlíf útaf þessu getið þið aðstoðað mig á einn eða annan hátt?
Með kærri kveðju, eilífðarvélin

Svar:
Sæll, þetta hljómar ekki vel.
Ég dreg ekki í efa að þú eigir við vanda að etja en ég skil ekki að þú skulir vera að í 5-6 tíma finnst mér ekki trúverðugt.  Seinkun eða hefting á sáðlátsreflexinum er tiltölulega sjaldgæf og orsakir lítið rannsakaðar. Þessi vandi þinn verður ekki leystur með stuttu svari en fyrst af öllu þarf að útiloka hvort um geti verið að ræða aukaverkanir lyfja s.s. þunglyndislyfja eða hvort ákveðnir sjúkdómar s.s. taugasjúkdómar eða alkóhólismi geti átt hér hlut að máli. Til að athuga heilsufar þitt verður þú að panta tíma hjá lækni og ég mæli með að þú hittir þvagfærasérfræðing. Ef heilsan er hins vegar glimrandi og ekki er lyfjum um að kenna verður að líta á aðstæðurnar, þína líðan og hvernig samband þitt er. Sumir karlmenn sem eiga við það sama að etja og þú eiga erfitt með að fá fullnægingu og sáðlát í samförum en ekki við sjálfsfróun. Þá er talað um sáðlátstregðu af sálrænum toga. Svar mitt hjálpar þér vonandi eitthvað við að taka ákvörðun um hvað þú telur rétt að gera næst.

Kveðja, Jóna Ingibjörg Jónsdóttir,
hjúkrunar- og kynfræðingur B.S., M.S.Ed.