Endurtekin fósturlát – get ég gert eitthvað?

Spurning:
Ég hef skrifað ykkur áður og fengið nokkuð góð svör. Þannig er mál með vexti að við hjónin höfum verið að reyna að eignast barn í þó nokkurn tíma (meira en 2 ár). Okkur hefur gengið heldur brösuglega og við erum búin að fara í allar almennar rannsóknir sem eru í boði. Yfir árs tímabil hef ég orðið ólétt þrisvar sinnum en hef misst í öll skiptin (tvær óléttur enduðu með duldu fósturláti á 11.-12. viku en þriðja óléttan kom í kjölfar seinna fósturlátsins og er meðgöngulengd ekki þekkt (var staðfest af lækni sem fósturlát)).
Mig langar að vita hvað þið haldið að gætu verið valdur þessara fósturláta? Við munum fara í frekari rannsóknir seinna í sumar en mér þætti vænt um að fá álit áður en ég fer svo ég gæti spurt réttra og viðeigandi spurninga. Líka svo ég viti hvað bíður mín/okkar. Eru einhverjar ráðstafanir sem ég get gert til að næsta meðganga fari ekki svona illa? Er boðið upp á nánara eftirlit? Mér finnst ég vera í lausu lofti og veit ekki hvað er framundan. Hverjar eru líkurnar á því að næsta meðganga gangi upp? Ætli við þurfum á tæknifrjóvgun að halda?
Takk fyrir,
Áhyggjufull

Svar:

Því miður er oft erfitt að finna út hvað veldur endurteknum fósturlátum þótt stundum finnist skýringar þar á. Þó eru þekktir ýmsir þættir sem geta orsakað síendurtekin fósturlát og þegar farið er í gegnum rannsóknir tengdar fósturlátum eru þessir þættir skoðaðir. Hér er um að ræða ýmsa sjúkdóma eða galla í mótefnakerfi móðurinnar, litningagalla sem stundum koma upp vegna þátta í samspili móður og föður, byggingagalla í leginu, vöðvahnúta í legi, slappan legháls, blöðrusjúkdóm í eggjastokkum og efnaskipta- eða hormónaójafnvægi. Einnig geta sýkingar eins og bogfrymilssótt, lysteria og cytomegalovirus valdið fósturlátum.

Það er ekkert sem ég get ráðlagt þér til að minnka líkur á fósturlátum annað en að fara vel með þig og taka fjölvítamín með a.m.k. 400 mikrog. af fólínsýru. Því miður er það svo að eftir því sem fósturlátum fjölgar eykst einnig hættan á fósturláti. Það eru einnig harla litlar líkur á að tæknifrjóvgun bæti nokkuð útkomuna þar sem þið hafið náð að frjóvga saman egg en vandamálið liggur í að fóstrið nær ekki að þroskast. Vonandi finnur læknirinn þinn einhverja skýringu á þessu sem ráða má bót á þannig að ykkur auðnist að eignast saman barn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir