Endurtekin meðgöngueitrun?

Spurning:
Sæl Dagný,
Mig langaði að spyrja hvað maður getur gert til að minnka líkur á meðgöngueitrun. Ég fékk meðgöngueitrun fyrir 5 árum og hef ekki þorað að verða ólétt aftur af ótta við að þetta gerist aftur, en nú langar mig virkilega til að eignast annað barn, en er hálf hrædd um að þetta endurtaki sig. Takk fyrir.

Svar:
Þar sem orsakir meðgöngueitrunar eru ekki að fullu þekktar er ekki hægt að gefa neina ákveðna formúlu að því hvernig koma má í veg fyrir hana. Hins vegar sýna rannsóknir að heilbrigðir lifnaðarhættir, að vera í kjörþyngd, skynsamlegt mataræði og hæfileg hreyfing fyrir meðgöngu geta dregið úr líkum á meðgöngueitrun og hæfileg hreyfing, aðgæsla í mataræði, svo sem að takmarka sykur-, fitu- og saltneyslu en auka jafnframt próteinneyslu sem og grænmeti og ávexti í fæðunni, næg hvíld og minnkun streitu í umhverfi á meðgöngu getur dregið úr einkennum meðgöngueitrunar eða jafnvel hindrað að hún nái sér á strik. Svo fá konur oft meðgöngueitrun með fyrsta barn en ekki endilega á síðari meðgöngum.

 

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir