Endurteknar martraðir

Spurning:

Góðan daginn.

Ég ákvað að skrifa núna því ég veit ekki hvað á að halda. Málið er það að ég er alltaf að fá martraðir og núna síðast í nótt. Þetta er alltaf þannig að það er fólk eða einhverskonar skrímsli á eftir mér og þau langar að pynta mig og drepa. Það er aldrei neinn annar sem ég þekki í draumunum, hvorki fjölskylda mín eða unnusti minn. Þess má geta að samband okkar er mjög gott og gagnkvæmt traust er til staðar og við elskum hvort annað mjög heitt.

En ég fæ þessar martraðir reglulega og jafnvel hátt í 3 í viku. Hvað er að mér, er undirmeðvitundinn eitthvað tortryggin gagnvart einhverju?

Með von um svar.

Svar:

Sæl og blessuð!

Í bréfi þínu segist þú fá endurteknar, hræðilegar martraðir og þú íhugar hvað valdi þessu.

Mara var áður fyrr talinn vera óvættur sem ofsækti, sæti á og træði á fólki í svefni. Þaðan er orðið martröð komið. Martraðir eru slæmir draumar sem fjalla um mjög ógnandi aðstæður og atburði svo sem að vera í lífshættu, vera hundeltur, lokast inni, standa frammi fyrir nátturuhamförum eða missa tennur. Flestir fá martröð einhvern tímann á ævinni, hjá einstaka verður þetta langvinnt vandamál. Algengastar eru martraðir meðal barna og ungs fólks.

Eðlilegur svefn skiptist í hvíldarsvefn og draumsvefn. Hvíldarsvefn skiptist í fjögur stig eftir því hversu djúpur hann er. Stig 1 er grunnur svefn sem auðvelt er að vekja upp úr, en mun erfiðara er að vekja upp úr 4. stigs svefni sem er djúpsvefn. Þegar einstaklingur sofnar fer hann úr vöku yfir í fyrsta stigs svefn og svo smám saman dýpkar svefninn yfir í stig 2, 3 og 4. Eftir u.þ.b. 70-90 mínútur kemur fyrsta draumskeiðstímabilið sem varir stutt í upphafi nætur en lengist eftir því sem líður á nóttina. Þetta svefnmynstur þar sem skiptist á hvíldar- og draumsvefn endurtekur sig alla nóttina. Draumsvefn er u.þ.b 20% af heildarsvefntíma.

Yfirleitt verður uppvöknun úr hvíldarsvefni á stigi 1 og 2. Verði uppvöknun úr draumsvefni, man fólk oftar drauma sína. Martraðir tengjast uppvöknun beint frá draumsvefni. Svefnrannsóknir sýna að við martraðir verður hjartsláttur og öndun hraðari rétt áður en uppvöknun verður eins og viðkomandi sé óttasleginn.

Oftast er ekkert sjúklegt að baki þess að fá tíðar martraðir. Þó eru endurteknar martraðir um sama eða svipað efni einkenni áfallasteituröskunar sem er geðröskun sem kemur í kjölfar mikils andlegs áfalls t.d. slyss eða upplifun nátturuhamfara.

Ef hlutfall draumsvefns eykst af einhverjum orsökum eru auknar líkur á martröðum. Draumsvefn og/eða uppvöknun úr draumsvefni getur aukist í kjölfar vímuefna- og lyfjanotkunar. Þannig eru martraðir algengar eftir neyslu áfengis, ekki síst hjá alkóhólistum sem eru að hætta drykkju, sjá Áfengi og svefn. „Tremmi“ (delerium tremens) sem er alvarlegt ástand eftir langvarandi drykkju, er talið vera draumsvefns ástand í vöku. Fíkniefnanotendur þjást iðulega af martröðum, jafnvel árum saman eftir að neyslu er hætt.

Ýmis lyf auka líka líkur á martröðum, t.d. háþrýstingslyf af flokki beta-blokkera, sefjandi lyf, nýrri gerðir þunglyndislyfja, bólgueyðandi lyf, svefnlyf og jafnvel sumar gerðir sýklalyfja. Þá eru martraðir einkenni sumra svefnsjúkdóma.

Ef þú ert hraust, hefur ekki orðið fyrir alvarlegu áfalli eða lífsreynslu, tekur engin lyf eða hefur verið í neyslu, tel ég ekki að ástæða sé til rannsóknar eða meðferðar á martröðum þínum. Oftast er þetta tímabil sem gengur yfir. Kannski gerir sú vissa að ekkert alvarlegt liggi að baki einkennum auðveldara að lifa með þessu.

Kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir