Endurteknir steptókokkar?

Spurning:
Ég er móðir tveggja og hálfs árs drengs sem var að smitast af strepótkokkum í 3. skipti frá því okt. sl. Hann fær mjög væg einkenni hita og nefrennsli en litlir rauðir flekkir á húð (reyndar þróast út í skarlatsótt einu sinni ) og skilaboð frá leikskóla um að þetta sé að ganga og pressa þaðan að láta kanna málið hafa valdið því að við höfum leitað til læknis og látið prófa hann. Hann hefur síðan alltaf farið á pensilín í kjölfarið.

Mig langar að fá svör við nokkrum spurningum: Er nauðsynlegt að meðhöndla streptókokka í hvert sinn með pensilíni og ef það er ekki gert aukast þá líkur á hættulegum fylgikvillum s.s. bólgu í hjartalokum? Getur barnið smitað aðra eftir að það er orðið einkennalaust án þess að hafa farið á pensilín? Er ráðlagt að láta ath. aðra einkennalausa fjölskyldumeðlimi ef einn í fjölskyldunni smitast? Ég hef fengið mjög misvísandi svör frá læknum/hjúkrunarfræðingum varðandi öll ofangreind atriði og því langar mig að fá ráðleggingar frá ykkur. Takk fyrir.

Svar:

Blessuð. Þetta eru nú spurningar sem kalla á löng svör en ég læt stutt nægja. Það sem ruglar sjúkdómsmyndina hér er að um 15% af öllum í þjóðfélaginu eru með streptókokka í hálsinum sem ekki eru að valda sýkingu þ.e. eru svokallaðir berar. Þeir geta hins vegar sýkt aðra þó líkurnar séu ekki miklar. Mjög erfitt er að uppræta streptókokkana hjá þeim og þarf raunar ekki. Ef streptókokkarnir eru hins vegar að valda einkennum þá er rétt að meðhöndla vegna hættu á fylgikvillum en ekki svo mjög hjartalokubólgu. Ekki er þörf á að rækta einkennalausa fjölskyldumeðlimi að öllu jöfnu.

Kveðja,
Þórólfur Guðnason