Engan áhuga á kynlífi, hvað er til ráða?

Spurning:
Ég er 23 ára og hef engan áhuga á kynlífi fyrr en við erum að verða búin bæði. Éég verð yfirleitt að pína mig til að byrja. Við eigum eitt barn sem er árs gamalt, enn þettað ástand hefur varað í ca 3 ár . Vandamálið er ekki það að ég elski ekki mannin minn. Ggaman væri að fá smá svar

Svar:
Eins og ég hef sagt nokkrum sinnum áður, er áhugaleysi fyrir kynlífi þó nokkuð algengt, bæði meðal karla og kvenna, þó algengara sé vafalaust að konur kvarti undan því en karlar. Áhugaleysi gagnvart kynlífi getur tengst ýmsum þáttum og skiptir þar miklu máli hvernig makarnir spila saman, sjálfstraust og sjálfsvirðing viðkomandi og hvernig viðkomandi sér til þess í lífinu almennt, að hann/hún lifi góðu og fullnægðu lífi. Oftast er ekki nóg að makarnir ræði málið einir og sér vegna allra þeirra tilfinninga, sem stýra þeim í slíkum samræðum. Þar er um að ræða tilfinningar eins og sektarkennd, tilfinning fyrir höfnun, tilfinning fyrir að standa sig ekki, óöryggi um hvort þetta er "mér að kenna", gæti þetta verið öðru vísi með öðrum maka og fullt af fleiri tilfinningum. Mín ráðlegging er því sú að ef þið viljið gera eitthvað í málinu skulið þið leita til fagmanns og fá aðstoð við að takast á við þetta vandamál. Það er rétt að árétta að þó vandamálið birtist hjá þér og eigi e..t.v. rætur sínar hjá þér, þá er þetta engu að síður einnig vandamál mannsins þíns, þar sem þetta hefur heilmikil áhrif á kynlíf hans. Hann þarf því að vera tilbúinn að líta svo á að hann þurfi að leggja sitt af mörkum til lausnar.

Góðar kveðjur,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.