Engin gallblaðra og illa starfandi bris?

Spurning:
Góðan dag.
Mig langar að fá svör við tveim spurningum. Hvaða áhrif hefur það á líkamann þegar gallblaðra er tekin? Hvaða áhrif hefur það á líkamann þegar brisið vinnur ekki sitt verk?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Sæl.
Varðandi gallblöðruna vísa ég í góða grein um sama efni eftir Bjarna Þjóðleifsson, meltingarlækni http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=3383&flokkur=4Varðandi brisið.
Briskirtillinn er inn-og útkirtlalíffæri og framleiðir hann ýmis hormón og meltingarhvata. Innkirtlahlutinn framleiðir m.a. insúlín sem seytrað er í blóðrásina til blóðsykursstjórnunar. Truflun á insúlínframleiðslunni leiðir til sykursýki. Útkirtlahlutinn seytrar meltingarsafa til skeifugarnarinnar og inniheldur safinn ýmsa efnahvata sem hjálpa til við að melta fæðuna, sérstaklega við niðurbrot próteina en einnig fitu og sykrunga. Einnig inniheldur safinn basísk sambönd sem hlutleysir súrt magainnihaldið sem berst til skeifugarnarinnar. Við skemmd á brisinu, t.d. við langvinnar brisbólgur ,sem oftast stafar af óhóflegri áfengisneyslu, verður truflun á útkirtlahluta brissins og lýsir það sér með kviðverkjum, megrun og fituskitu (gráleitar, illa lyktandi hægðir og loftgangur). Ef stór hluti brissins er fjarlægður, eins og stundum er gert vegna æxlis í brisinu, verður einnig truflun á starfsemi þess. Brisið getur rýrnað með aldrinum en sinnir þó áfram hlutverki sínu vel. Til eru töflur sem innihalda brishvata (t.d. Pancrease og Pankreon) og eru þær notaðar með mat hjá þeim sem hafa truflaða brisstarfsemi.

Kveðja

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum