Spurning:
Góðan dag! Þessum spurningum er beint til Jónu Ingibjargar og þær eru svona:
1. Er algengt að pör fái fullnægingu samtímis? Ég er í ástríku (seinna) sambandi og okkur hefur báðum tekist að fá fullnægingu en hann er ekki ánægður með að það gerist ekki samtímis. Sjálf hef ég mjög sjaldan upplifað það og finnst það í góðu lagi að fyrst komi annað og svo hitt. Ég hélt satt að segja að það væri lang oftast þannig. Hvað segir sérfræðingurinn?
2. Er algengt að konur fái fullnægingu án þess að fingur eða munnur komi við sögu og er það sjaldgæft að konur fái nánast aldrei fullnægingu án þessara ,,hjálpartækja"? Þannig er það hjá mér. Með fyrirfram þökk fyrir svarið.
Svar:
Sæl,
1. Það er rétt hjá þér að pör fá sjaldnast fullnægingu samtímis. Það ber meira á þeirri ósk hjá körlum en konum en þeir virðast telja að það sé merki um gott kynlíf ef parið fær það samtímis. Það er hætta á því að pör sem reyna að stilla saman fullnægingar svo þær komi á sama augnabliki, verði svo upptekin af því að fá það samtímis að öll önnur ánægja og vellíðan í ástarleiknum fellur í skuggann. Ég myndi frekar spyrja mig að því hvers vegna hann er svona upptekinn við að þetta gerist og hvaðan kemur sú þörf eiginlega?
2. Svarið við báðum þessum spurningum er ,,nei". Það er ekki algengt að konur fái fullnægingu án þess að fingur eða munnur komi við sögu og það er ekki sjaldgæft að konur fái nánast aldrei fullnægingu nema með þeim hætti. Í flestum sjálfshjálparbókum um kynlíf er að finna grundvallarupplýsingar á borð við þessar og hvet ég þig til að kíkja í þær.
Með kveðju,
Jóna Ingibjörg.