Er þetta grindargliðnun?

Spurning:
Ég er ólétt og geng með mitt fyrsta barn og er komin 18 vikur á leið. Um daginn fór ég til læknis sem greindi mig með grindargliðnun. Ég er með mikla verki fyrir ofan rass sem leiða upp á bak og niður í fæturna, einnig er ég helaum í rófubeininu og finn til þegar ég sit eða geng. En undanfarið hef ég verið að versna svo rosalega í lífbeininu að ég er alltaf með einhvern verk í lífbeininu sem lýsir sér með stingjum á innanverðum lærum og niður lærin. Stundum eru þessir verkir eins og vægir túrverkir og eru staðbundnir þarna í klofinu. En spurning mín er þessi, er eðlilegt að verkir í lífbeininu lýsi sér svolítið eins og smá túrverkir eða þreytuverkir?

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Þessir verkir sem þú ert að lýsa koma heim og saman við grindarverki. Grindarverkir koma bæði fram í baki og lífbeini og byrja oft sem verkur í lífbeini. Verkurinn versnar oft við göngu og miklar stöður og getur lýst sér sem þreytuverkur. Það er líka ýmislegt annað sem er að gerast á meðgöngunni þinni núna, legið þitt er að vaxa hratt og getur valdið svokölluðum togverkjum í liðböndum sem halda leginu á sínum stað og festast við grindina þannig að þú gætir líka verið með einkenni frá því. 
Ég vona að þetta svari spurningu þinni.
Gangi þér vel

Kær kveðja,
Brynja Helgadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.