Er dóttir mín að þyngjast nóg?

Spurning:
Sæl.
Ég hef miklar áhyggjur af dóttur minni vegna þess hvað hún sefur mikið og þyngist lítið. Hún er núna tveggja mánaða og er 4300 grömm hún var 3400 þegar hún fæddist en léttist reyndar niður í 2950 áður en hún fór að þyngjast, er þetta eðlileg þygdaraukning? Ég hef of theyrt um að börn þyngist um 1 kíló fyrsta mánuðinn og annað þann næsta, hún er bara búin að þyngjast um tæpt kíló á tveimur mánuðum.
Svo er það þetta með svefninn. Ég þarf alltaf að vera að vekja hana til að drekka, yfirleitt vek ég hana og gef henni ef hún hefur sofið í 4-5 klst. Það gerist æ sjaldnar að hún vakni sjálf innan þess tíma. Á nóttunni hef ég samt leyft henni að sofa 6 tíma. Svo síðustu nótt gaf ég henni vel kl 22:30 og hún sofnaði strax, ég fór svo sjálf að sofa og gleymdi að stilla klukkuna á hálf fimm til að láta hana drekka þá og hún svaf til kl. 8, eða í 9 og hálfan tíma! Þá tók ég hana og skipti á henni og hún vaknaði við það og þá gaf ég henni, setti hana svo í ömmustólinn rétt fyrir 9 og tíu mínútum síðar var hún sofnuð og ég vakti hana svo eftir 4 og hálfan tíma. Er þetta eðlilegur svefn hjá tveggja mánaða barni? Þetta gengur samt ekki svona allan daginn, yfirleitt vakir hún seinni partinn eða á kvöldin í ca 4-5 klst í tveimur lotum með góðum svefni á milli. Hún er annars alveg yndisleg, grætur sára sjaldan, brosir og hjalar, en ég hef samt áhyggjur af þessu, sérstaklega þar sem mér finnst þetta vera að aukast. Með von um svör.

Svar:
Sæl og blessuð og takk fyrir fyrirspurnina.
Algengasta áhyggjuefni nýbakaðra foreldra er meðal annars hvort að barnið þyngist ekki nóg.
Samkvæmt mínum útreikningum þá hefur dóttir þín þyngst um 1350 gr frá því að hún fór að þyngjast (2950 gr) og ef við deilum því á 8 vikur þá er þetta tæp 170 gr á viku sem er innan eðlilegra marka. Við viljum að börn þyngist um 150-200 gr á viku. Þegar ég set hana inn á vaxtarkúrfu eins og gert er í ungbarnaeftirliti þá er hún við meðaltalslínu og virðist halda sinni línu miðað við fæðingarþyngd, svo að ég held að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af þessu hún virðist þyngjast nóg. En ef þú hefur áhyggjur þá getur þú alltaf pantað tíma í ungbarnaeftirliti og fengið aukavigtun fyrir hana og ráðfært þig við hjúkrunarfræðing eða ljósmóður sem starfa á þinni heilsugæslustöð.
Varðandi svefninn þá er meðaltalssvefnþörf hjá 0-4 mánaða börnum 16 klukkustundir á sólarhring og kornabörn sofa allt að 16-19 klukkustundir á sólarhring til að byrja með. Þau vakna oftast á 4-5 klukkustunda fresti til að nærast. Það kemur þó fyrir að þau sofi tvöfalt lengur í einu og það er allt í lagi ef barnið er eðlilegt. Dóttir þín virðist þyngjast og dafna vel þrátt fyrir þennan svefn, hún tekur sinn vökutíma á deginum og er það bara gott þú ert heppin að hún skuli vera svona vær og góð og sofa á nóttinni en það er ekkert óeðlilegt að hún sofi alla nóttina.
Í ungbarnaeftirliti er fylgst vel með hvort börnin þyngist ekki nóg og hvernig barnið þroskast svo að endilega nýttu þér þá þjónustu og ráðfærðu þig við starfsmenn þar ef þú hefur áhyggjur en miðað við þessar upplýsingar sem að ég hef þá sýnist mér þetta vera eðlilegt barn.
Vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni,
Kær kveðja,
Ásthildur Gestsdóttir, ljósmóðir.