Er eðlilegt að þurfa að taka lyf á meðgöngu?

Ég hef heyrt um svo margar konur sem eru óléttar og þurfa að taka rennie eða omeprazol við bakflæði og svoleiðis og hin og þessi lyf t.d við bjúg, sem óléttar mega taka.
En er eðlilegt að heilbrigðar konur sem verða svo óléttar fái bjúg og bakflæði og alls konar svoleiðis eða eru þær flestar óheilbrigða fyrir eða á meðan meðgöngu stendur ef þær þurfa svona lyf? Svo sem borða óhollt, hreyfa sig lítið og þess háttar.

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina

Þungun hefur gríðarleg áhrif á líkamann og starfssemi hans. Þegar þrýstingur eykst í kviðarholi um leið og barnið og legið stækka getur það valdið bakflæðieinkennum rétt eins og hjá fólki sem er kviðmikið af öðrum ástæðum. Af sömu ástæðum getur safnast bjúgur á konur þar sem aukið álag verður á hjarta og æðakerfið vegna aukinnar þyngdar. Konur verða mismikið varar við þessi áhrif og séu þær hraustar í grunninn eru meiri líkur á að þessi einkenni hverfi að fullu að meðgöngu lokinni. Þessi einkenni eru ekki ný af nálinni en hins vegar eru möguleikar á lyfjum sem konur mega nota á meðgöngu að fjölga sem betur fer.

Með kveðju

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur