Er ég þybbin?

Spurning:
Sæl Ágústa (ég held að það sért þú sem svarar svona fyrirspurnum). Ég er búin að skoða svör þín til annarra notenda en finn samt ekki svar sem hentar mér. Málið er: Ég er rúmlega tvítug, smábeinótt, 158 cm og 65 kg.

Er búin að vera í líkamsræktarstöðvum frá sautján ára aldri – þyngdist ég frá 47 kg í 60 kg. Var á ,,rangri" p-pillu. Léttist svo fljótlega aftur niður í 53 kg. Byrjaði að æfa með einkaþjálfara og varð aftur 58 kg. Tvítug var ég orðin 60 kg og í haust varð ég 65 kg!!! Þetta þjakar mig bæði líkamlega og andlega og ég er hætt að vilja fara út úr húsi.

Ég á mjög marga og góða vini en ég vil ekki bjóða þeim upp á mig í þessu líkamsástandi nema þá aðeins nánustu vinum. Er þetta eðlilegt? Ég hef alltaf verið þessi ,,sæta, ofurhressa, skemmtilega" týpa en núna er ég hreinlega bara boring. Foreldrar mínir minnast á þetta dag eftir dag ,,Elskan mín, hvenær ætlarðu í megrun? Þú ert orðin alveg rosalega feit". Ég er alltaf í megrun en þar sem að það gengur ekki neitt þá hætti ég alltaf. Það er enginn til að hvetja mig og ALLAR vinkonur mínar eru að hrynja í sundur af hori og éta McDonalds og kók í kringum mig þegar ég er í megrun sem gerir mér mun erfiðara fyrir. Hvað er til bragðs að taka? Hversu oft á ég að lyfta og brenna í viku? Ég gef mér tíma í svoleiðis lagað. Hversu oft á dag er gott að æfa í mesta lagi? Á að gera það sama dag eða sitthvorn? Er þessi magaþjálfi frá Hreysti sniðugur? Er þessi blóðflokkamegrun góður kostur? Hvað myndir þú segja að væri best að borða? Hvað tekur mig ca. langan tíma (þ.e.a.s. ef ég er dugleg) að ná mér niður í 50kg?

Og númer 1, 2 & 3. Er ég feit eða er ég þybbin? Ég vil vita hið sanna þar sem að ég geri mér ekki grein fyrir því. Málin eru 29 cm upphandleggir, 84 cm undir brjóstum, 90 cm magi (miðað við nafla), 96 mjaðmir, 100 rass, 60 cm læri, kálfar 37 cm. Ég veit að þetta er vinnan þín en so sorry að ég sé með svona vælukjóabréf en þannig líður mér einmitt núna.

Svar:

Þú ert með Body mass index (BMI) 24 og eðlileg þyngd telst vera BMI 18.5-24.9 þannig að þú ert rétt innan þeirra marka.  BMI 25-29.9 er talið vera ofþyngd og yfir 30 BMI er offituástand.  Það er ekki gott að þyngd þín sé að valda þér andlegri vanlíðan. Megrun er ekki rétta leiðin og allra síst blóðflokkamegrun.  Þú þarft að tileinka þér skynsamlegar breytingar á neysluvenjum. Ég ráðlegg þér að leita til næringarráðgjafa til að fá góða hjálp við það. Ég get mælt með Ólafi Sæmundssyni sem starfar með okkur hér í Hreyfingu. Hann er með netfangið oli@hreyfing og þú getur sent honum póst og óskað eftir tíma hjá honum. Gerðu það endilega sem fyrst.  Varðandi þjálfun þá mæli ég með fjölbreyttri þol- og styrktarþjálfun 4-6x í viku, ca 1 klst í senn og bara 1x á dag, annað er of mikið álag á líkamann. Til að komast af stað í góðri þjálfun er gott að fá ráð hjá góðum þjálfara og ég mæli með því að þú gerir það a.m.k. til að byrja með. Það er ofur eðlilegt að fitna á þessum aldri, þ.e. eftir 17 ára aldur. Með skynsamlegu fæðuvali og reglubundinni hreyfingu er ég sannfærð um að þú kemst í flott form á nokkrum mánuðum. En mundu samt að fólk er með mismunandi vaxtarlag og ekki geta allir verið þvengmjóir. Það sem skiptir máli er að vera heilbrigð og í góðu líkamlegu ástandi og í þeirri þyngd sem passar þínum líkama. Gangi þér vel.kv. Ágústa Johnson.