Spurning:
Ég á 12 ára dóttir sem virðist ekki finna þörf hjá sér að drekka nema kannski eitt til tvö glös af vökva á dag og þarf þar af leiðandi sjaldan að pissa og er alltaf með harðar hægðir. Getur þetta ekki verið hættulegt því að um daginn í sólinni leið hún nærri því út af í hitanum en hresstist við að fá sér vatn sem hana langaði samt ekkert í? Hún er mjög lítil eftir aldri og grönn en hefur alltaf verið hraust.
Svar:
Þú þarft endilega að hvetja dóttur þína til að drekka meira. Öll efnaskipti líkamans fara fram í vatni og ofþornun er mjög hættuleg. Þegar ég las bréfið þitt þá mundi ég eftir gömlum bandarískum manni sem sagði mér sögu af barnabarni sínu sem var mjög óduglegt að drekka og þjáðist af harðlífi. Fleiri börn í hverfinu þjáðust af sama vandamáli og saman ákváðu þau að stofna félag og nafn þess (skammstöfun sem ég man ekki) var dregið af því að börnin áttu alltaf að fá sér eitt glas af vatni um leið og þau voru búin að pissa – skila líkamanum því sem tekið var í burtu. Þetta gekk mjög vel og félagið hefur stækkað mjög mikið og flestir krakkar í hverfinu komnir í þetta félag.
Best er ef þú gætir komið vatni ofaní hana, en ef það gengur ekki þá gætir þú reynt þynnta ávaxtasafa. Gott er að koma upp einhverju kerfi þar sem hún drekkur á ákveðnum tímum eða við ákveðin tækifæri. Þorstastöðvarnar í okkur eru nefnilega mjög illa hannaðar því við finnum ekki fyrir þorsta fyrr en við erum orðin ansi þurr.
Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur