Spurning:
Hæ, ég er karl á fertugsaldri sem er á lyfjum við öllu mögulegu, vegna geðrænna vandamála og langvarandi verkja vegna giktar. Ég er sífellt með martraðir næstum hverja nótt, þær tengjast einelti frá því að ég var í skóla og ýmsu fleiru. Þetta er búið að vara í mjög langan tíma og er ég alveg að gefast upp á þessu, einnig hrýt ég alveg ferlega að mér er tjáð. Er eitthvað sem hægt er að gera í þessu?
Svar:
Þú nefnir margvísleg vandamál og spyrð hvort eitthvað sé hægt að gera. Að sjálfsögðu er hægt að gera eitthvað í málinu, sérstaklega ef þú hefur viljann til þess og finnur rétta farveginn fyrir þig. Það er auðvitað misjafnt hvað hentar hverjum og einum en það eru til dæmis geðlæknar sem myndu vinna með svona mál og einnig sálfræðingar. Hugræn atferlismeðferð er á stundum notuð þegar um svona vandamál er að ræða, hún er meðal annars stunduð á Reykjalundi og á Landspítalanum.
Það er hópmeðferð sem gengur út á að gefa fólki ,,verkfæri” til að vinna með tilfinningar og neikvæða þætti. Einnig vinna sumir sálfræðingar eftir þeim fræðum, oftast hægt að sjá það í símaskránni undir sálfræðingar hvað sérgrein þeir hafa. Hér í Geðhjálp eru sjálfshjálparhópar starfandi seinnipartinn og á kvöldin þar sem fólk deilir sameiginlegri reynslu og fær stuðning/samkennd. Á Landspítala geðsviði á horni Hringbrautar og Snorrabrautar er bráðamóttaka og göngudeild opin frá 08.00-23.00 virka daga en frá 13.00-21.00 um helgar.
Einnig fara sumir þá leið að fá ráðgjöf hjá sínum heimilislækni um hvert beri að leita hverju sinni. Gangi þér vel og ef þú vilt fá nánari kynningu á starfssemi okkar í Geðhjálp er þér velkomið að vera í sambandi í síma 5701700 eða að koma til okkar á Túngötu 7, það er opið virka daga frá 9.00-16.00 en einnig um helgar frá 11.00-13.00.
Kær kveðja,
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp