Er farin að finna fyrir grindarverkjum

Spurning:

Sæl og blessuð öll sömul.

Núna vantar mig smáráðleggingar.

Ég er komin 23 vikur á leið og er farin að finna fyrir þessum grindarverkjum. Þetta er samt bara á byrjunarstigi. Ég finn fyrir þessu þegar ég geng lengi og þegar ég er búin að sitja lengi og stend svo upp. Verkir í rófubeininu, sem leiða niður í rass og upp í bak. Núna eru þetta líka orðnir hliðarverkir (sitthvoru megin á mjaðmagrindinni). Hvernig get ég komið í veg fyrir að þessir verkir aukist? Þeir eru á byrjunarstigi, en ég vil gera eitthvað fyrirbyggjandi svo þetta fari ekki að hamla mér í vinnunni.

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Þú verður fyrst og fremst að hlusta á líkamann og breyta eftir því hvernig þér líður. Verkurinn er ákveðin viðvörun um að þú sért að gera of mikið miðað við þitt ástand. Þú talar um að þú finnir fyrir verkjum við langa göngutúra og langar setur. Það eru einmitt dæmigerð einkenni hjá konum með grindarverki að þær þurfa stöðugt að skipta um stöður til að forðast þreytu/verki. Þetta á jafnt við um liggjandi, sitjandi eða standandi stöðu. Farðu því frekar í tvo stutta göngutúra heldur en einn langan. Nú veit ég ekki hvað þú starfar við, en algengt er að konur með grindarverki neyðist til að stytta vinnutíma sinn þegar líða tekur á meðgönguna t.d. ef um skrifstofustörf er að ræða. Þær virðast þola illa að sitja við í fleiri tíma á dag þrátt fyrir góðan vinnustól og vinnuaðstöðu. Oft er einnig hægt að flytja til í starfi innan sama fyrirtækis þannig að verkefnin verði fjölbreytilegri. Þetta þarf að skoða því að flestar vilja vinna eins lengi og kostur er fram að fæðingu. Eins er hugsanlegt að þú þurfir að draga úr eigin kröfum við heimilisstörfin til að fyrirbyggja frekari einkenni. Ef þú hefur möguleika á að fá hjálp heimavið er mikilvægast að þú sleppir við gólfþrif og burð á þungum þvottabala og innkaupapokum svo eitthvað sé nefnt. Ég vil benda þér á grein grindarlos, þar er fjallað um hvernig maður á að bera sig að til að draga úr verkjum (einnig er hægt er að nálgast bæklinginn þér að kostnaðarlausu á skrifstofu Félags íslenskra sjúkraþjálfara í Lágmúla 7, 3.hæð.)

Ef þér finnst einkennin aukast þrátt fyrir breytt atferli ættir þú að leita þér aðstoðar hjá sjúkraþjálfara.

Gangi þér vel,
Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari í Styrk.