Er hægt að verða ólétt strax eftir fósturmissi? Geta óléttuhormón ennþá verið til staðar og ruglað prufur???

Komið sæl.
Èg er 38 ára og á fyrir 3 börn. En nú er ég búin að missa 5 sinnum á síðustu 2 árum, lengst gekk ég með í 14 vikur og þá þurfti ég að fara í útskröpun. Fékk sýkingu eftir það og var löggð inn. Það er hálft ár síðan. Ég varð svo aftur ólétt í nóv. Það byrjaði að koma bleik lituð útferð hjá mér 4 des og byrjaði svo að blæða hjá mér 6 des. Ég man ekki til þeas að ég hafi farið á blæðingar síðan og núna er lok febrúar. Ég tók 4 óléttuprufur á 4 mismunandi dögum og þær komu allar út jákvæðar. Geta ennþá verið einhver ólèttuhormón í gangi hjá mér sem rugla prufurnar og gera þær jákvæðar??? Ég finn ekki fyrir neinum óléttu einkennum, en er samt búin að vera hálf slöpp eitthvað. Èg er samt varla að þora að fara til læknis því ég þori ekki að fara að reyna að búast við einhverju sem svo aldrei verður.
Kærar kveðjur og von um svör

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Hafir þú nýlega misst fóstur, farið í fóstureyðingu eða fengið utanlegsfóstur er mögulegt að þú fáir jákvætt þungunarpróf í allt að 9 vikur þó þú sért ekki lengur þunguð.  En það getur þó farið aðeins eftir því hversu langt gengin þú ert þegar þú missir.  Við fósturlát lækka hormónagildin mjög snöggt þannig að þau verða síður mælanleg með þungunarprófi.

Ég mæli eindregið með því að þú pantir þér tíma hjá kvensjúkdómalækni til að fá útúr þessi skorið og vertu opin með áhyggjur þínar svo þú fáir alla þá hjálp og stuðning sem þarf með þær niðurstöður sem þú færð.

Gangi þér vel

Lára Kristín

Hjúkrunarfræðingur