Er hægt að láta stækka liminn?

Spurning:
Þessi spurning mín er ætluð þvagfæralæknum. Ég er 30 ára karlmaður, 188 á hæð og þrekinn. Ég á við þann vanda að glíma að limur minn er nokkuð lítill. Sérstaklega eftir áreynslu eins og eftir líkamsrækt og fótbolta. Þá virðist hann vera ekki neitt og felur sig bara. Ég fer aldrei í sturtu eftir svona og ég hef ekki farið í sund síðan ég kláraði sundprófið í grunnskóla. Þetta hefur valdið mér vandræðum þegar ég er með konu eins og vert er að skilja. Þetta er rosalega vandræðalegt og hef ég aldrei talað við lækni um þetta. Ég átti við hormónatruflanir að stríða þegar ég var táningur og fékk ég brjóst eða fitukirtil sem var svo seinna tekinn. Kannski þetta vandamál mitt hefur eitthvað að gera með það? 
Ég hef ekki lesið mér til um þetta mál neitt og veit svo sem ekki hvar ég ætti að byrja en mig langar bara til að vita hvort eða kannski frekar, hvað það er hægt að gera í svona málum eins og mínu. Ég vildi bara gjarna vera venjulegur og geta farið í sturtu og sund eins og allir aðrir. Eru gerðar aðgerðir á Íslandi til að stækka liminn eða fer maður erlendis? Er kostnaðurinn mikill? Nú er maður að taka eftir að stelpur fara í brjóstastækkun eða -minnkun á kostnað ríkisins, er mitt vandamál eitthvað mikið frábrugðið þeirra? Er orðinn svo þreyttur að eiga við þetta vandamál. Með fyrirfram þökk. Bangsi

Svar:

Það er nokkuð algengt að karlar leiti til þvagfæraskurðlækna með sömu fyrirspurn og þú hefur, en almenna reglan er sú að reðurlengd karla er misjöfn og sérstaklega við ákveðnar aðstæður eins og þú lýsir sem og t.d. kulda. Líkamsbygging hefur einnig áhrif á hina sýnilegu stærð reðurs og skiptir fitudreifing þar mestu máli. Afar sjaldan hefur þetta meinta ástand nokkur tengsl við sérstaka sjúkdóma, ef heilsufar er annars eðlilegt sem og líkamsbygging og gildir það einnig um hormónatruflanir. Margir hafa því miður e-s konar ranghugmyndir um eðlilega reðurstærð, en vísast er að ræða málið við þvagfæraskurðlækni. Hinar svokölluðu ,,lengingaraðgerðir" eru því miður svo til alltaf afar árangurslitlar og oftar en ekki geta þær valdið fylgikvillum sem gera ástandið verra. Því miður eru þær auglýstar af sumum (erlend tímarit og dagblöð, heimasíður) sem góð lausn eða aðgerð með litlum eða engum fylgikvillum. Slíkar aðgerðir er unnt að gera hérlendis, en eftir því sem best er vitað, þá eru þær afar sjaldgæfar og aldrei gerðar nema að undangengnum ítarlegum ráðleggingum og upplýsingum til viðkomandi. Almenna reglan er loks sú, að yfirleitt er ekki um að ræða óeðlilega lítinn reður hjá þeim er leitar skoðunar ef tekið er mið af breytileika reðurlengdar.Bestu kveðjur,Valur Þór Marteinsson