Er hægt að losna við hrukkur?

Spurning:

Góðan dag.

Ég leitaði lengi og vel að upplýsingum um lýtalækningar, þ.e. meðferð sem boðið er uppá hjá lýtalæknum sem felst í því að sprauta í hrukkur og eyða þeim. Mig langar að vita allt um þessa hluti, þ.e. er þetta hættulegt, varir árangurinn lengi o.s.frv. Ef um einhverjar slíkar upplýsingar er að ræða á vefnum ykkar, vinsamlega bendið mér á þær. Ef ekki, væri hægt að fá slíkar greinar/upplýsingar inn á vefinn?

Kveðja.

Svar:

Varðandi hrukkur og meðferð við þeim þá eru ýmsar meðferðir til að betrumbæta útlit þeirra. Ein er sú að efni – náttúruleg sýra eins og þá sem er að finna í líkamanum – er sprautað inn undir húðina í hrukku-fellinguna þannig að hún lyftist upp og sléttist. Efnið eyðist smám saman en er talið duga að meðaltali í ½ til 1 ár etv. lengur. Önnur aðgerð, ljós-geisla meðferð getur dugað vel á fínar, byrjandi hrukkur. Meðferðin felst í því að farið er yfir allt andlitið með ljós-geisla sem hefur áhrif á frumur djúpt í húðinni – collagen (sem gefur húðinni þéttni) og elastin (sem gefur húðinni teygjanleika). Þetta er meðferð sem er endurtekin allt að sex sinnum með 3ja vikna millibili og getur því tekið um 3-4 mánuði. Árangur að meðferð sem slíkri endist að meðaltali í 1½ til 2 ár e.t.v. lengur. Séu hrukkur mjög miklar og djúpar þá er þriðja aðgeðin sú að í svæfingu er farið yfir allt hrukkusvæðið og ysta lag húðarinnar er tekið af með laser tækni. Eftir þessa aðgerð er fólk frá vinnu einhvern tíma en endingin er mest – að meðaltali frá 5 árum etv allt að 10 árum. Ég ráðlegg þér að leita til lýtalæknis til skoðunar og mats á því hvað hentar best fyrir þitt ástand. Kynntu þér vel allar upplýsingar varðandi aðgerðina, undirbúning fyrir hana, mögulega fylgikvilla og eftirmeðferð áður en þú ákveður að gangast undir meðferð/aðgerð.

Vil ég benda á heimasíðu Laserlækningar, þar sem nálgast má frekari upplýsingar um meðferðina auk þess sem þar er að finna myndir fyrir og eftir meðferð.

Kveðja,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu