Er hættulegt að taka pilluna án hlés?

Spurning:
Er hættulegt að taka pilluna aftur og aftur án þess að taka hléin á milli?

Svar:

Nei, það er ekki hættulegt. Hins vegar eru þær getnaðarvarnarpillur sem eru á íslenskum markaði þróaðar með það í huga að gert sé hlé á þriggja vikna fresti. Læknar vita að það gengur að taka einn til tvo mánuði samfleytt en engar rannóknir hafa verið gerðar á þeim tegundum sem hér eru hvort það bjóði upp á einhverja hættu eða truflun á límamsstarfsemi. Þótt það sé ekki líklegt er samt best að gera slíkt í hófi og í samráði við lækni sinn. Það hafa verið gerðar rannsóknir og markaðsett pilla sem tekin er samfleytt í 6 mánuði en það er í Kanada og því einhver bið að við fáum evrópskar niðurstöður sem styðji þetta, þótt margt bendi til að það hafi ákveðna kosti að taka samfellt frekar en þessi hlé sem ákveðið var að hafa í byrjun þrónunar á getnaðarvarnarpillunni þegar reynt var að líkja eftir hefðbundnum tíðarhring kvenna. Þó verður kona að gæta þess ef hún vill taka tvö eða fleiri spjöld samfleytt, að ef hún er á svo kallaðri kaflaskiptri pillu (þ.e. ef litir eru í pilluspjaldi og þar með styrkleiki er mismunandi (þrjár slíkar gerðir á markaði á ísl)) þá verður konan að halda áfram með sama lit úr næsta spjaldi. Þetta getur læknir þinn farið nánar út í.

Bestu kveðjur
Arnar Hauksson.dr med