Er í lagi að fara í ljósaböð á megöngu?

Spurning:
Mig langar að forvitnast um það hvort það sé í lagi að fara í ljós á meðgöngunni og hvort það breyti einhverju ef ég set handklæði um mig miðja. Einnig langar mig að vita hvort það sé í lagi að taka inn króm á meðgöngunni.

Svar:
Það er aðallega tvennt sem mælir á móti ljósaböðum á meðgöngu (fyrir utan varnaðarorð húðsjúkdómalækna).

Annarsvegar er það fagurfræðilegt atriði sem snýr að þér. Á meðgöngu á litarefni húðarinnar það til að hlaupa í kekki skíni á hana sól eða útfjólublátt ljós. Þú getur því átt það á hættu að verða brúnflekkótt með hvítum skellum eftir notkun ljósalampa eða sólböð. Þessar litabreytingar eru varanlegar og hverfa ekki eftir að meðgöngu lýkur.

Hitt atriðið varðar fóstrið. Við legu í ljósalampa getur líkamshiti þinn hækkað. Hitastigið í leginu er yfirleitt einni gráðu heitara en líkamshiti þinn þannig að barninu verður mögulega of heitt og það veldur streitu á viðkvæm líffærakerfi þess. Þekkt er að mikill og langvarandi hiti getur valdið fósturláti. Það er óvíst að ljóst handklæði um kviðinn hafi nokkuð að segja, hitinn er sá sami.

Hvað varðar krómið þá tel ég enga þörf á aukakrómi hjá manneskju sem borðar eðlilegan mat. Þetta er jú einvörðungu snefilefni og dagsþörfin því pínulítil, 20 – 200 míkrógrömm. Það er þó erfitt að fá eitrun af því nema á formi sexgilds króms, en það veldur nýrna- og lifrarskemmdum. Líffæri fóstursins eru mun viðkvæmari en þín og ráða illa við ofskömmtun vítamína og snefilefna. Farðu því ekki fram úr ráðlögðum dagskömmtum af þessum efnum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir