Er komin 10 vikur á leið og vakna í svitabaði á nóttunni

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 10 vikur á leið og er farin að vakna upp á nóttunni við mikið máttleysi. Þetta hefur gerst núna 3 nætur í röð og ég er orðin mjög þreytt á þessu. Ég vakna upp með skjálfta og svitna við að hreyfa mig. Ég þurfti að skríða fram úr og fá mér kex og var hátt í klukkutíma að fá orku í líkamann á ný.

Ég vil ekki borða á nóttunni vegna þess að mér þykir það ýta undir að ég verði of þung. Veistu hvað getur verið að mér, ég skil þetta ekki vegna þess að ég hef hugað vel að því hvað ég set ofan í mig og borða hollan mat reglulega.

Ég tek járn sem er fljótandi vegna þess að ég var með 80 í blóði nýlega og hef verið samviskusöm um að taka það inn. Getur þetta tengst blóðleysi. Hvað er til ráða?
Með fyrirfram þökkum.

Kveðja,
Ein komin 10 vikur.

Svar:

Sæl.

Það sem þú lýsir líkist blóðsykursfalli en það gæti líka verið merki um skort á ferritíni sem er eitt afbrigði blóðleysis. Ég tel hyggilegt að þú talir við heimilislækninn þinn og segir honum frá þessu. Hann getur mælt ferritíngildið og blóðsykurinn hjá þér.

Ef þetta er blóðsykursfall getur það verið merki um lélega sykurstjórnun líkamans og þú þurft nákvæmari rannsóknir. Til að létta þér þetta ef þú vaknar svona upp gæti verið sniðugt fyrir þig að hafa djúsglas við hendina og svolgra það áður en þú ferð fram úr rúminu og fá þér svo brauðsneið á eftir.

En láttu fyrst og fremst heimilislækninn líta á þig.

kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir