Er matarfíkn alltaf andleg?

Spurning:

Sæll.

Er matarfíkn alltaf andleg? Hvernig get ég sigrast á henni, ég er orðin langþreytt á að vera of þung og éta í kvöl. Mér líður stundum eins og alka sem hefur dottið í það eftir meðferð. Ég er með ofhægan skjaldkirtil og tek lyf við því og það á að vera alltílagi, ég hef líka verið á þunglyndislyfjum en er að hætta á þeim núna og ég er skíthrædd um að ég eigi eftir að éta mig upp í 200 kíló. Ég er núna 91 kíló og BMI stuðul 33. Ég er að æfa núna 5-6 í viku og hef gert meirihlutan af síðasta ári en stjórna mér ekki í matnum.Hvað á að gera við svona keis eins og mig? Ég er búin að fá nóg af fólki sem segir mér að nota viljastyrkinn, og fólk sem segir hættu bara að fara í bakarí, sjoppu…o.s.fr. heldur þetta fólk ekki að ef það væri svo auðvelt að "bara" hætta þá væri ég svona feit og þunglynd. Fyrirgefðu langlokuna en ég er að verða ráðþrota og farin bara að langa að hverfa frá þessari plánetu.

Svar:

Sæl.

Ég vildi óska að ég réði yfir töfrasprota sem ég gæti gripið til og aðstoðað þig og þína líka til að vinna bug á þeim þjáningum sem þú lýsir svo vel í fyrirspurn þinni. En töfrasprotann á ég ekki frekar en hver annar.

Ein algengasta ástæðan fyrir því að fólki reynist erfitt að halda aukakílóunum frá er tengd andlegri líðan. Hvort „matarfíkn” þurfi endilega að vera tengd andlegri líðan tel ég ekki vera en þó er öruggt að margir sem líða andlegar þrautir leita í mat sér til huggunar. Neyslan kann að slá tímabundið á sárustu þrautirnar en þegar til lengri tíma er litið eykur þessi huggunaraðferð á andlega vanlíðan. Hvað er til ráða? Töfralausnir eru því miður ekki til en hægt er að venja sig á vissar atferlisreglur sem geta hjálpað.

Atferli

1. regla: Þegar ákveðið hefur verið að fara í megrun er mikilvægt að hefja skráningu á því sem neytt er. Ásamt því að gera fólki kleift að átta sig á þeim fjölda hitaeininga sem það neytir og æskilegri samsetningu orkuefnanna getur það einnig reynst öflug leið til að festa breytingu á neyslumunstri í undirmeðvitundina.

2. regla: Þegar farið er að kaupa inn í matinn eiga menn alls ekki að vera svangir. Ef fólk fer að versla svangt lendir gjarnan mikið af orkuefnaríkum mat í innkaupakörfuna; mat eins og súkkulaði, kartöfluflögum og ís.

3. regla: Þegar verið er að borða ber að beina athyglinni að borðhaldinu. Margir sem eiga við offitu að stríða eru sífellt að stinga einhverju upp í sig jafnvel þegar verið er að sinna heimilisstörfum, lesa og horfa á sjónvarp. Það er mjög mikilvægt að tengja neyslu við ákveðna staði og ákveðnar stundir. Með öðrum orðum að borða á föstum matmálstímum. Ef hins vegar hefur verið ákveðið að neyta einhvers matar, segjum fyrir framan sjónvarp, er skynsamlegt að velja kolvetnaríka ávexti, svo sem vínber og vatnsmelónu, í stað kolvetna- og fituríkra afurða eins og kartöfluflagna eða súkkulaðirúsína.

4. regla: Þegar sest er að snæðingi er mikilvægt að fylgja ákveðnum borðsiðum. Í ljós hefur komið að þeir sem berjast við aukakílóin tyggja fæðuna minna og borða hraðar en fólk í kjörþyngd. Slíkt neyslumunstur leiðir oft til mikillar orkuefnaneyslu á stuttum tíma. Saðningartilfinningin berst heilanum ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir að um 20 mínútur eru liðnar frá því að einstaklingurinn byrjar að borða. Þetta getur meðal annars merkt að einstaklingur sem étur bæði mikið og hratt og stendur upp frá borðum eftir 15 mínútur og hefur ekki enn fundið til saðningar (finnur þó fyrir ákeðnum þrýstingi í vömb) fer að finna fyrir yfirþyrmandi og óþægilegri saðningartilfinningu nokkrum mínútum síðar. Vörumst því að háma í okkur og borðum hægar. Gefum okkur tíma til að tyggja og njóta fæðunnar.

Einnig eru þeir margir (sérstaklega af eldri kynslóðinni) sem óar við því að leifa mat og í stað þess að henda mat í ruslakörfuna nota menn maga sinn sem „ruslakörfu”. Þess vegna er mikilvægt að fólk hætti að borða þegar það er satt og sé matur eftir á diskinum ætti að setja leifarnar í umbúðir og geyma til næstu máltíðar eða henda þeim í ruslakörfuna.

5. regla: Þegar illa gengur er mjög mikilvægt að leita til aðila sem geta hjálpað með andlegri uppörvun og stuðningi. Mörgum finnst þægilegt að láta fjölskyldu og vini vita um markmið sín til að eiga auðveldara með að leita til þeirra þegar á móti blæs. Sumum kann að þykja betra að vera í hópi með öðrum einstaklingum sem svipað er ástatt um og sækja þá gjarnan í líkamsræktarstöðvar, eða aðrar stofnanir sem bjóða upp á þjónustu þar að lútandi eins og á Heilsustofnun NLFÍ og Reykjalund. Einnig eru þeir sem kjósa að fá aðhald með reglubundinni heimsókn til fagaðila eins og næringarfræðinga og sálfræðinga. Enn öðrum þykir gott að tilheyra megrunarhópum eins og OA (overeaters anonymous), sem eru samtök einstaklinga sem telja sig ofátsfíkla og hittast reglulega til að skiptast á skoðunum og stappa stálinu hver í annan.

Höfum hugfast að þó að fólk lendi í &
thorn;ví að eiga einn og einn slæman neysludag merkir það ekki að stríðið við „offitudrauginn”sé tapað. Í stað þess að fyllast sjálfsmeðaumkun og sökkva sér á fullu í ofát verður fólk að vera meðvitað um að það er heildarmyndin sem skiptir máli.

Dæmi: Soffía neytir að meðaltali 1.400 hitaeininga á sex dögum. Sjöundi dagurinn telur aftur á móti 3.000 hitaeiningar. Að meðaltali er því Soffía að neyta um 1.600 hitaeininga þessa sjö daga en það merkir að þrátt fyrir einn mjög stóran dag ætti hún að léttast um hálft kíló af fituvef, þá að því gefnu að brennslugetan jafngildi um 2.100 hitaeiningum á dag.

6. regla: Þegar settu marki er náð er gott að verðlauna sjálfan sig. Ef við gefum okkur að Soffía þurfi að léttast um 20 kíló gæti hún sett sér það markmið að verðlauna sig fyrir hver fimm kíló sem henni tækist að losa sig við. Verðlaunin ættu þó ekki að vera í formi matar og drykkjar. Gott ráð er að skrifa niður það sem viðkomandi finnst gaman að gera en hefur ekki náð að hrinda í framkvæmd. Það getur verið að fara í bíó eða leikhús, hafa samband við gamla kunningja, fara á söfn eða listasýningu, svo eitthvað sé nefnt.

Að lokum má geta skemmtilegrar aðferðar til að viðhalda áhuga. Hún felst í að verða sér úti um stóran gegnsæjan plastpoka á sama tíma og megrun hefst og fyrir hvert kíló sem einstaklingurinn léttist um þá setur hann kíló af smjöri eða mör í pokann. Líklegt má telja að einstaklingnum finnist það þægileg tilfinning að halda á pokanum þegar þyngd pokans er kannski komin í 15-30 kg.

Ég vona að þú getir notfært þér eitthver þeirra ráða sem ég hef getið um hér. Ekki gefast upp!

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur