Er með andateppu og kvíða

Spurning:

Ég átti barn fyrir 10 mánuðum síðan. Rétt eftir að ég varð ófrísk byrjaði ég að eiga erfitt með andardrátt. Læknirinn sagði að þetta væri bara barnið sem þrýsti svona á. Ég tók það gott og gilt, en eftir að ég átti barnið var ég enn haldin andarteppu og leiða og fannst mér þetta eitthvað skrítið. Ég fékk þunglyndislyf hjá lækninum eftir þetta allt, en mér fannst þau ekkert virka þó ég væri búin að vera á þeim í þó nokkurn tíma, en hann sagði að þetta mundi allt lagast. Nú í dag finnst mér erfitt að fara til heimilislæknisins. En ástandið versnar bara og ég veit ekki hvert ég get leitað. Mér finnst stöðugt eins og ég sé bara að deyja, og get ekki farið út á meðal fólks. Getur verið að ég sé haldin svona rosalegum kvíða? Hvert get ég leitað?

Svar:

Sæl.

Það er rétt að kvíði getur lýst sér í andateppu – en það getur líka ýmislegt annað. Læknarnir þínir hafa væntanlega gengið úr skugga um að þú sért ekki haldin neinum sjúkdómum eða efnaskiptatruflunum sem valdið geta mæði, t.d. járnskorti eða skjaldkirtilssjúkdómi. Það er unnt að finna út úr því með blóðprufum. En þar sem þú talar um að andarteppunni fylgi leiði finnst mér líklegt að þarna sé um að ræða þunglyndi.

Þar sem ástandið fer versnandi er nauðsynlegt að þú fáir rétta greiningu og meðhöndlun strax. Það má vera að þunglyndislyfin sem þú fékkst taki meira en viku að virka en eins getur verið að einhver önnur lyf myndu henta þér betur. Reyndu að tjá þig við heimilislækninn þinn – hann ætti að geta fundið réttu meðferðina. En ef þér finnst þú alls ekki geta rætt þetta við hann þá geturðu leitað til göngudeildar geðdeildar sem er opin alla virka daga og þarf ekki að panta tíma heldur bara mæta þar. Göngudeildin er til húsa í geðdeild Landspítalans við Eiríksgötu. Þar færðu viðtal við hjúkrunarfræðing sem kemur þér svo áfram í viðeigandi meðferð. Það er ómögulegt að þú sért svona öllu lengur því þunglyndi skemmir svo fyrir tengslum móður og barns og getur haft varanleg áhrif á þroska barnsins og vellíðan fjölskyldunnar allrar. Fáðu aðstoð og láttu þér batna.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir