Er með vefjagigt, hvernig get ég bætt líðan mína?

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég er með greinda vefjagigt og hef verið að berjast við hana í nokkur ár. Ég er 31 árs og ég á þrjú börn. Ég er í sjúkraþjálfun tvisvar í viku og hef verið í sundleikfimi tvisvar í viku ég tek inn gigtarlyf, Amilín og Sertral auk verkjalyfja en mér líður oftast illa. Ég er með verki víða og dett niður í þunglyndi, verð mjög grátgjörn og finnst ekkert ganga minn veg. Ég hef reynt að passa upp á vigtina en hún stígur æ meira og ekki er það til að bæta skapið heldur.

Mér virðist sem margir með vefjagigt geti stundað sína vinnu og sinnt börnum og áhugamálum. Mig vantar einhver ráð um hvað ég gæti gert til að bæta líðanina.

Með fyrir fram þökkum.

Svar:

Vefjagigt er margþætt vandamál sem taka þarf á frá ýmsum hliðum.

Miklu skiptir að bæta svefninn og rjúfa vítahring verkja og svefntruflana. Það er gert með t.d. Amilíni. Regluleg þjálfun er mikilvæg og sjúkraþjálfun hjálpar mörgum. Þannig að þú ert greinilega að vinna mikið í þínum málum.

Þú talar um að þú dettir niður í þunglyndi. Það getur aukið einkenni vefjagigtarinnar og einnig gert þér erfiðara að takast á við hana. Því getur hjálpað að leita aðstoðar hjá fagfólki t.d. sálfræðingi eða geðlækni.

Það er mjög misjafnt hversu illa vefjagigtin leggst á fólk og hversu vel tekst að ráða við einkenni hennar og því ekki rétt að bera sig of mikið saman við aðra með vefjagigt. Það þarf að líta á hvern einstakling og meta getu hans og færni.

Miklu skiptir að fræðast sem best um vefjagigtina. Hjá Gigtarfélagi Íslands eru reglulega haldin námskeið um vefjagigt þar sem hinir ýmsu fagaðilar eru með fræðslu um gigtina og leiðir til að bæta líðan. Gigtarfélagið hefur gefið út fræðslubæklinga um vefjagigt sem hægt er að nálgast á skrifstofu þess.

Innan Gigtarfélagsins er einnig starfræktur vefjagigtar- og síþreytuhópur þar sem fólk getur hitt aðra með svipuð vandamál, lært af reynslu þeirra og fengið stuðing til að takast á við gigtina.

Gigtarlína,
Gigtarfélags Íslands, gigt.is