Er ófrjósemisaðgerð ekki varanleg?

Spurning:
Hæ.
Fyrir ellefu mánuðum átti ég barn sem var tekið með keisara, í leiðinni var ég tekin úr sambandi. Á fimmta mánuði byjaði ég svo á blæðingum og hef verið á réttum tíma alltaf , en nú eruengar blæðingar, ég er búin að taka þungunarpróf  tvisvar og bæði voru neikvæð.
Ég er 37 ára, getur verið að ég sé komin á breytingaskeið?
Er ófrjósemisaðgerð ekki varanleg?
Takk fyrir.

Svar:

Ágæti fyrirspyrjandi,

Helst á maður að hafa fengið upplýsingar um öryggi aðgerðar áður en maður fer í hana. Ófrjósemisaðgerðir geta mistekist og eða að eggleiðarar opnist aftur, þó slíkt sé sjaldgæft. Í fræðigreinum er talið að í einni af 200 til 500 aðgerðum geti konan orðið frjó aftur. Fer þó nokkuð eftir tegund aðgerðar og öðrum aðstæðum. Fyrst þungunarpróf er neikvætt er ekki líklegt að þú sért þunguð, heldur frekar að blæðingu hafi seinkað af einhverri af mörgum orsökum.  Rétt er þó að gera aftur þungunarpróf hafi tíðir ekki komið innan fjögurra vikna frá síðasta prófi. En almennt er ólíklegt að miðað við aldur þinn sértu komin á breytingaraldur, miklu fremur að þetta sé svokallað tíðastopp. Ella væri rétt að leita ráða hjá lækni dragist tíðir umfram það sem ég get um hér.

Bestu kveðjur
Arnar Hauksson dr med