Spurning:
Er ofvirkni ákvörðuð af genum?
Svar:
Góðan dag og þakka þér fyrirspurnina.
Í mjög stuttu máli sagt, þá er það ekki vitað enn.
En það sem við köllum ofvirkni (sem er ýmislegt) virðist liggja í ættum og verið er að rannsaka hér á landi sem annars staðar í heiminum hvort tilhneigingin erfist genetískt.
Einnig er mikið rætt um ýmiss lífeðlisfræðileg áhrif, s.s. sveiflukennt boðefnaflæði í heila.
Þá er verið skoða mögulega höfuðskaða, s.s. á meðgöngu eða í fæðingu. Það virðist nokkuð algengt að í frásögn mæðra þeirra sem greinast ofvirkir í grunnskóla, sé talað um erfiða meðgöngu, erfiða fæðingu eða áföll í fæðingu og heilsuleysi barnsins fyrstu ár ævinnar. Við vitum hins vegar e.t.v ekki eins mikið um ýmsa utanaðkomandi áhrifaþætti sem gætu verið meðvirkir í þessu samhengi.
Það sem við köllum ofvirkni virðist frekar birtast við tilteknar aðstæður en aðrar, s.s. í skólastofunni frekar en í skátaútilegu, eða að sama hegðunin truflar umhverfið stundum meira en ella. Ofvirknishugtakið er að mörgu leyti flókið, t.d. vegna þess að það er samkomulagsatriði hvað kallað er ofvirkni og getur þ.a.l. verið breytilegt frá einum tíma til annars.
Að svo komnu máli getum við kannski lítið gert beint til að hafa áhrif á orsakir þess sem við köllum ofvirkni, en við getum ýmislegt gert til að hlúa að þeim börnum sem hafa slík einkenni og hjálpað þeim til að stýra hegðun sinni betur en þau almennt gera. Ef barnið er á lyfjum vegna ofvirkninnar er mikilvægt að nýta þann tíma vel og kenna því þá nýja siði með markvissum og kerfisbundnum aðferðum. Best hefur reynst að beita þekkingu atferlisvísindanna til að kenna því fólki sem annast börnin og umgengst þau daglega ákveðnar aðferðir í kennslu og uppeldi. Í því máli er til mikils að vinna.
Gangi ykkur vel,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur