Erfitt að fá fullnægingu?

Spurning:
Hæ hæ… Ég veit að þið eruð búin að fá ábyggilega margar spurningar um þetta vandarmál. Það er nefninlega þetta skemmtilega fullnægingarvandamál! Við kærastinn minn erum búin að vera saman í nokkra mánuði og ég hef alltaf verið svo LENGI að fá það og stundum bara kemur það ekki. Vandarmálið er ekki löngunin í kynlíf eða ég á ekki erfitt með að blotna og hann gefur sér góðan tíma í mig og oft er það alveg að koma en svo er bara eins og það slokknar á því. Mér líður mjög ílla yfir þessu því ég vill ekki vera svona lengi og hann er líka leiður yfir því og finnst jafnvel eins og það sé honum að kenna, sem er ekki því að ég gleymist sko ekki. Hvað er hægt að gera svo að maður passi saman í kynlífinu og að þetta geti hætt að vera vandarmál?   
Með von um svar:)

Svar:
Blessuð og sæl. Ég held að þið séuð eitt af þeim pörum sem gætu orðið dugleg í að búa til áhyggjuefni. Þú spyrð hvað sé hægt að gera svo þið ,,passið betur saman í kynlífinu" en mér heyrist að þið passið ekkert illa saman. Ykkur þykir greinilega vænt um hvort annað og viljið hvort öðru það besta. Það er gott veganesti fyrir samband. 
Vandinn, sýnist mér, liggur meira í ykkar þekkingu um eðli fullnæginga og viðhorfum til kynlífs en að fá uppskrift að pottþéttri ,,fullnægingartækni". Það er eðlilegt að fullnæging komi ekki í hvert sinn sem par elskast og því meiri áhyggjur sem maður hefur af því hvort fullnæging sé á leiðinni eða  ekki, því erfiðara er fyrir konuna að njóta þess sem hún gerir og því síður kemst hún yfir svonefndan fullnægingarþröskuldinn. Þótt fullnæging sé ekki á dagskránni er vel hægt að njóta hvors annars svo báðum líði vel. Þetta viðhorf þurfið þið að æfa miklu, miklu betur. Ef þið gerið það, munuð þið komast að því einn góðan veðurdaginn að fullnæging er ekki mál málanna þótt hún sé auðvitað góð og eftirsóknarverð tilfinning. Ég get líka orðað þetta á annan veg: ef þið eruð stöðugt að velta ykkur upp úr því hvort fullnæging sé lengi á leiðinni eða komi alls ekki, verður æ erfiðara að njóta alls annars í kynlífi. Þá tekst ykkur hægt og rólega að drepa bæði niður kynlífsáhuga og fullnægingarnar, þegar þið viljið keppa að einni slíkri.  Látið glanstímaritunum og súpersex bókunum eftir kröfurnar um fullnægingar í stríðum straumum og eftir pöntun- það versta sem þið gerið ykkur er að hlusta eftir svoleiðis óraunhæfum og óskynsamlegum kröfum. 
En svona almennt séð, er oft betra að kona sjái sjálf um þá örvun sem hún þarf eða hentar henni, til að fullnæging verði þegar hún stundar ástarleiki  með öðrum en sjálfum sér.  Hún finnur lang best hvers konar örvun líkaminn vill þá og þá stundina. Sama hversu góður gæi rekkjunauturinn er, hann les ekki hugsanir og getur ekki vitað hvaða snerting er rétt eða best, það og það augnablikið.  Svo ef þú átt auðveldara með að sjá sjálf um fullnægingarörvunina í ykkar ástarleik þá áttu hiklaust að gera það frekar en að vonast að hann "hitti nú á rétta blettinn".

Kveðja, Jóna Ingibjörg.