Erting í augum, kláði og slím?

Spurning:

Sæll.

Ég er 27 ára, einstæð 3ja barna móðir með mjög ung börn, hef mikið að gera og er undir álagi bæði í vinnu, einkalífinu og heimafyrir. Ég hef haft ertingu í augunum sl. 4 mánuði, en engin roði né gröftur. Það myndast slím í augunum og ég blikka mjög mikið, mig klæjar og finnst alltaf eins og mjög fínn sandur sé undir augnlokunum. Ég fór til heimilislæknis og fékk dropa gegn ofnæmi sem ég notaði í rúma viku en versnaði bara af þeim. Svo ég fór til augnlæknis og fékk aðra dropa sem heita Livostin og hef verið að nota þá í rúmar 2 vikur og ekkert lagast. Ég er með mikla vöðvabólgu aftan á hálsi og á öxlum og alltaf þreytt og orkulaus. Þó gæti ég þess að sofa alltaf nóg og ekki of mikið og borða nokkuð reglulega og fjölbreytta fæðu. Sem sagt augun mjög slæm og mikil þreyta og slen.

Hjálp óskast.

Svar:

Komdu nú sæl.

Það er mikið á þig lagt og sendi ég hér með til þín baráttukveðjur. Hvað augnvandamálin varðar þá rennir mig í grun að hér geti verið um að ræða hvarmabólgu og/eða þurr augu. Hvort tveggja er algengt hér á landi og sem betur fer er oftast fremur auðvelt að meðhöndla þessa sjúkdóma. Til að fá fullvissu um sjúkdómsgreiningu þyrftirðu auðvitað að komast í skoðun hjá augnlækni.

Þú gætir prófað að kaupa gervitár án lyfseðils í apóteki og borið þau í augun 3-4x á dag. Einnig getur hjálpað að setja heitan bakstur (hreinan þvottapoka vættan í nokkuð heitu vatni) á lokuð augun í 1-2 mínútur á hverju kvöldi. Ef þetta hjálpar ekki myndi ég leita augnlæknis vegna þessa. Ég hef mikla trú á að það takist að hjálpa þér með þetta.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.