Eru fitumælingar öruggar?

Spurning:

Ég fór í fitumælingu á líkamsræktarstöð og fékk áfall yfir úkomunni. Mig langar að vita hvort þessar mælingar séu öruggar og ef svo er, hvort ég sé á hættumörkum hvað varðar heilsuna, og hvernig sé best að koma sér í lag. Ég er rúmlega fimmtug kona, 173 cm og 82 kg. Út úr mælitækinu kom strimill með þessum tölum: FAT % 48,6kg, FAT MASS 39,8kg, LBM 42,0kg, TBW 30,7kg (hvað þýðir LBM og TBW og hvað eru eðlileg hlutföll). Ég er í tækjum í líkamsræktinni, reyni að fara 4 sinnum í viku, og er í rúman klukkutíma. Byrjaði fyrir 3 vikum. Ég er kyrrsetumanneskja sem hef tekið mig til annað slagið og farið í líkamsrækt, en hætt og verið lengi að hafa mig af stað aftur. Ég kaupi alltaf magrar mjólkurvörur, og finnst ég ekki geta minnkað fitu svo mikið. Hvað er til ráða? Fyrirfram þökk fyrir góð ráð!

Svar:

Komdu sæl.

Fitumælingar eru misjafnlega nákvæmar og fer það eftir því hvaða tæki er notað til að mæla líkamsfituna. Sum tæki eru þannig að vökvamagnið í líkamanum hefur mikil áhrif á niðurstöðurnar og oft eru sveiflur í vökvamagni líkamans og því geta niðurstöður verið ónákvæmar. Það skiptir einnig höfuðmáli að sá sem framkvæmir mælinguna kunni vel til verka.

LBM þýðir Lean Body Mass (fitulaus líkamsþyngd). Ég hefði haldið að T í TBW stæði fyrir total en þar sem þú segir að TBW hafi verið 30,7 getur það ekki staðist og átta ég mig ekki á hvað T stendur fyrir en BW stendur fyrir Body Weight. Æskilegt hlutfall líkamsfitu fyrir konu á þínum aldri er u.þ.b.19-24%. Mitt mat er að nákvæmasta fitumæling sem völ er á á Íslandi er svokölluð klípumæling þar sem mælt er með fitumælingatöng. E.t.v. líður þér betur við að prófa þá aðferð (ég reikna ekki með að sú aðferð hafi verið notuð þegar þú varst mæld).

Ég ráðlegg þér að halda áfram í tækjaþjálfun og hreyfa þig auk þess daglega í 20-30 mínútur, t.d. hjóla eða ganga rösklega. Líkami okkar er gerður fyrir hreyfingu og mikil nauðsyn að við hreyfum okkur reglulega allan ársins hring, alla ævi. Vertu áfram vakandi yfir fituneyslu þinni og hitaeininganeyslu. Ég myndi í þínum sporum anda rólega yfir þessum niðurstöðum og einbeita mér að því að bæta líkamlegt ástand smám saman. Þú getur svo síðar notað þessa mælingu sem viðmiðun um hversu miklum árangri þú hefur náð, þ.e. ef þú lætur mæla þig aftur með sömu aðferð.

Gangi þér vel.
Kveðja, Ágústa Johnson, líkamsrætkarþjálfari.