Eru kartöflur, pasta og brauð fitandi?

Spurning:

Sæll.

Ég er 41 árs kona og hef stundað jóga síðan um áramót. Mér líkar afskaplega vel og hefur þessi ástundun fengið mig til þess að passa matarræðið betur (ég er ca 3-4 kílóum yfir meðalþyngd).

Ég reyni að sneiða hjá fitulausri og sætri fæðu og gengur bara mjög vel. Hins vegar heyrði ég um daginn að kartöflur, pasta og brauð væri ekki æskileg fæða þó svo þær væru tiltölulega fitusnauðar. Getur næringarfræðingur upplýst mig um þetta?

Kveðja.

Svar:

Komdu sæl.

Kolvetnaríkur matur eins og kartöflur, pasta og brauð eru að sjálfsögðu dæmi um mjög góðan og hollan mat. Og í reynd er mjög erfitt að fitna af slíkri fæðu þó auðvitað sé það mögulegt. Ástæðan fyrir þeirri bábilju að slíkur matur sé fitandi má rekja til óhefðbundinna og hættulegra megrunarkúra þar sem fólki er ráðlagt að sneiða hjá kornmeti (svo sem brauði og pasta), ávöxtum (eins og banönum og vínberjum) og grænmeti (eins og kartöflum og gulrótum). En í þess stað borða fituríka fæðu (eins og spæld egg, beikon og rjóma) og próteinríka fæðu (eins og soðinn kjúkling, fisk og súrt skyr). Að sjálfsögðu er út í hött að hvetja fólk sem hefur áhuga á að losa sig við aukakíló til framtíðar að fara á slíkt öfgamataræði.

Ef þú vilt nánari upplýsingar vil ég benda þér á eftirfarandi fyrirspurn:

Offita –ráðleggingar sem virka

Einnig er ítarlega fjallað um fitu- og próteinkúra í pistli sem er að finna á Doktor.is undir fyrirsögninni:

Fitu-/próteinkúrarnir sívinsælu

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur