Eru strákar að nota mig?

Spurning:
Mér finnst eins og strákar noti mig. Hvernig er hægt að komast hjá því að þeir geri það? Því mér líður alltaf svo illa með þessa tilhugsun og þetta brýtur mig gjörsamlega niður og allt sjálfsálit og sjálfstraust minnkar og minnkar með tímanum og það er að verða að nánast engu. Einnig vil ég vita hvernig ég get byggt það upp og orðið ánægð með sjálfa mig eins og ég er því ég hef aldrei fullkomlega verið með mjög mikið sjálfsálit né sjálfstraust. Hvað get ég gert??? Þetta er búið að ganga svona í mjög langan tíma svona um það bil 2 ár að mér finnst. Takk fyrir. Ein döpur

Svar:
Sæl.
Þetta er góð spurning og alls ekki óalgengt að stúlkur á þínum aldri hafi sömu áhyggjur. Þú verður að byrja á því að gera greinarmun á því hvort þetta sé tengt hugsunum þínum (þér finnst þetta) eða hvort þetta sé raunin (strákar nota mig).  Er þetta í raun staðreynd að strákar noti þig eða tengist þetta lágu sjálfsmati og hugsunum eða viðhorfum til stráka. Hvernig hugsar þú t.d. um sjálfa þig? Hvaða áhrif hefur það á viðhorf þín til stráka og hvaða áhrif hefur það á hegðun þína innan um stráka?  Hugmyndir kynjanna um sambönd á þessum árum eru mjög ólíkar en þó þarf að varast að alhæfa. Það er til dæmis alhæfing ef maður segir að allar stúlkur vilja varanlegt traust samband og það er líka alhæfing að segja að allir strákar vilji bara stutt kynlífssambönd. Hvernig samband vilt þú og hvernig samband telur þú að strákar vilji? Einnig getur þú spurt þig hvort þú viljir yfirleitt vera í sambandi. Þú þarf fyrst að finna hvað þú vilt og hvað þú getur gert til að ná þínum markmiðum. Hvað er það helst sem hindrar þig í að ná þessum markmiðum. Skoðaðu vel hvaða hugsanir valda því að þú telur ástandið vera svona. Mundu að á undan allri hegðun kemur einhverskonar mat á aðstæðum eða einhver hugsun sem síðan hefur áhrif á hegðunina. Þessar hugsanir skjótast oft upp í hugann án þess að maður ráði við þær og oft án þess að maður taki eftir þeim. Það er aftur á móti hægt að æfa sig í að taka eftir þessum hugsunum og skoða hvort þær séu t.d. alhæfingar, fordómar eða neikvæðar hugsanir um sjálfan sig. Reyndu að taka eftir þessum hugsunum og skrifaðu þær niður. Þú getur síðan skoðað hvaða áhrif þær hafa á hegðun þína og viðhorf. Ef þú treystir þér ekki til að vinna á þessu sjálf þá getur þú leitað til sálfræðings. Þú finnur símanúmer hjá þeim á gulu síðunum í símaskránni.

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur