Eymsli í brjóstum?

Spurning:
Ágæti viðtakandi,
Mig langar svo til að spyrja að einu og það er varðandi mikil eymsl í brjóstum rétt fyrir blæðingar hvers vegna gerist það? Ég verð svoleiðis að það má varla koma við þau vegna eymsla en samt er svo skrýtið að það samt eins og svona gott vont að koma við þau. Ég hef ekki verið á pillunni í að verða ár vegna þess að ég er að reyna að verða ólétt og minnist þess ekki að mér hafi liðið svona þegar ég var á henni. Önnur spurning, er skíðaiðkun æskileg fyrir barnshafandi konu?

Svar:
Svona eymsli í brjóstum fyrir blæðingar er vel þekkt fyrirbæri og fer oft vaxandi eftir því sem konan eldist. Þessi eymsli tengjast hormónastarfsseminni sem gengur í bylgjum eftir tíðahringnum. Það er hormónið progesteron sem veldur vökvasöfnun í brjóstum og breytingum á mjólkurkirtlum sem undirbúningi fyrir mögulega meðgöngu. Þetta hormón eykst eftir egglos fram að blæðingum og þess vegna verða margar konur aumar í brjóstunum síðari hluta tíðahringsins (eins konar stálmi). Verði frjóvgun halda brjóstin áfram að vera aum fram á meðgönguna vegna stækkunar mjólkurkerfanna og áframhaldandi vökvasöfnunar.
Skíðaiðkun er nú ekki æskilegasta form íþrótta á meðgöngu vegna mögulegrar hættu á byltum og liðbandaskaða. Það ætti þó að vera í lagi ef varlega er farið fyrstu 12-16 vikurnar.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir