Fæ ekki Harmonet?

Spurning:
Ég var að spá í með getnaðarvarnarpilluna. Þannig er að ég er búin að vera að taka pilluna Harmonet. En núna er ég stödd í landi þar sem hún er ekki seld og ég kemst ekki til Íslands til að verða mér út um hana. En í apóteki hérna var mér sagt að þessar eftirfarandi pillur væru með sama innihaldi og í raun nákvæmlega eins og Harmonet. Þær heita: Meloden og Gracial.
Er þetta rétt ?
Ég vil ekki fá pillu sem er með meiri hormonaskammti en Harmonet inniheldur, hún fer vel í mig. Get ég treyst því sem verið er að segja við mig og tekið aðra hvora þessara pilla að loknum skammti af Harmonet?
Hver er í raun munurinn á þessu pillum þremur ef hann er þá einhver?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Harmonet og Meloden innihalda báðar sömu virku efnin og í sama magni. Gestóden 75 míkrógrömm og etinýlestradíól 20 míkrógrömm.Gracial inniheldur hins vegar önnur efni en hinar tvær. Í fyrsta lagi eru 22 töflur á spjaldi í stað 21, í öðru lagi er hún tvífasa, þ.e.a.s. ekki er sama magna hormóna í fyrstu 7 töflunum og þeim seinni 15, þriðja lagi er gestagen hormónið ekki það sama og í fjórða lagi er talsvert meira af östrógenhormóninu etinýlestradíól í Gracial en hinum tveimur.Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur