Fælni og kvíðaköst

Spurning:

Hæ.

Ég er tuttugu og eins árs og ég er mjög hrædd við fólk og svo held ég að ég sé haldin einhverskonar fælni þegar að vinnu kemur, oft þá fæ ég kvíðaköst ef ég hugsa til þess að ég þarf að fara í vinnuna og oft kemst ég ekki einu sinni út úr húsi til að fara að vinna, það er ekkert vandamál fyrir mig að fara út úr húsi annars. Ég er mjög þreytt á þessu og vil helst komast að því af hverju þetta er. Hefurðu einhverjar ráðleggingar.

Takk fyrir.

Svar:

Heil og sæl.

Það eru margir sem kannast við það að kvíða fyrir því að fara í vinnuna. Flestir láta sig hafa það, drífa sig af stað og komast svo að raun um að ástandið er ekki eins slæmt og þeir bjuggust við. Það sem þú ert að lýsa er hins vegar öllu alvarlegra, þ.e. kvíðaköst ef þú hugsar um vinnuna og það að komast ekki út úr húsi til þess að fara að vinna. Mér finnst líklegt að þú hafir velt fyrir þér hvað gæti verið hér á ferð en nefni samt nokkrar spurningar sem þú ættir að reyna að svara: Hvernig gengur þér í vinnunni, ræður þú vel við verkefnin sem þú ert að fást við, ertu undir miklu álagi, hvernig eru samskiptin við samstarfsfólk, er um einhverskonar einelti að ræða, hvert er viðhorf yfirmanna, ertu einangruð, áttu félaga eða vini í vinnunni, ertu leið á vinnunni eða eru störfin leiðigjörn, er eitthvað heima sem þú vildir frekar sinna o.s.fr.v.

Það er áreiðanlega einhver ástæða fyrir þessari fælni þinni. Hún kann að liggja í einhverjum þeim atriðum sem ég nefni hér að ofan eða einhverju öðru sem hægt væri að komast að við nánari eftirgrennslan. Byrjaðu á að skoða stöðuna vel og athugaðu hvað þú getur gert í málinu. Hitt er svo annað mál að þó svo maður viti hver ástæðan er getur verið erfitt að yfirstíga kvíðann. Þú gætir reynt að slaka vel á og telja í þig kjark, athuga hvort neikvæðar hugmyndir þínar eru í raun og veru réttar eða reyna að fá stuðning frá vini eða vinnufélaga. Ef þér sýnist að það muni ekki duga skaltu leita þér aðstoðar, t.d. hjá sálfræðingi. Hann gæti hjálpað þér að skilja hvaðan kvíðinn er kominn, hvað hann er að segja þér og aðstoðað þig við að vinna bug á honum.

Bestu kveðjur og óskir um gott gengi.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur