Spurning:
Kæra Dagný.
Hvernig er faðernispróf gert og hvenær eftir fæðingu barns?
Svar:
Sæl.
Með faðernisprófi geri ég ráð fyrir að þú eigir við DNA blóðprufuna sem gerð er til að ganga úr skugga um rétt faðerni, neiti meintur faðir að gangast við barni sem honum er kennt.
Ef þú ert viss um að meintur faðir neiti að eiga barnið, eða ef fleiri en einn maður kemur til greina sem faðir barnsins, er fyrsta skrefið að fara í sónar sem allra fyrst á meðgöngunni til að fá áætlaða meðgöngulengd sem nákvæmasta. Síðan er bara að bíða þar til barnið fæðist og þá er tekið Úr því naflastrengsblóð við fæðingu og það greint og flokkað, en hluti þess geymdur fyrir DNA rannsóknina.
Eftir að barnið er fætt gerir þú yfirlýsingu um hver faðirinn er og er það gert hjá sýslumanni á þeim stað sem þú býrð. Hann gengur síðan frá því að kalla viðkomandi mann til að skrifa undir að vera faðir barnsins og ef hann neitar þarf hann að fara í blóðprufu til að gera á honum DNA erfðaefnisrannsókn sem síðan er borin saman við erfðaefnið úr blóði barnsins. Sú rannsókn getur tekið allt að 3 mánuði. Ef maðurinn sem rannsóknin var gerð á reynist vera réttur faðir þarf hann að borga rannsóknina, 67 þúsund krónur, en ekki ef hann er ekki réttur faðir.
Það er erfitt að standa í faðernismálum og hafa félagsráðgjafar kvennadeildar Landspítala sérhæft sig í stuðningi við þær konur sem eiga í þeim, t.d. varðandi snemmsónarinn og beiðnina hjá sýslumanni. Það er langskynsamlegast að snúa sér til þeirra með öll svona mál. Síminn hjá félagsráðgjöfum kvennadeildar er 560 1165.
Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir