Spurning:
Af hverju fæðast börn þegar þau fæðast?
Fyrir tilstilli hvaða hormóna gerist þetta?
Hvað veldur hríðum?
Hvað veldur því að fylgjan losnar?
Hvað gerist í líkama móðurinnar?
Hvað gerist í líkama barnsins?
Mér þætti vænt um að fá að vita þetta sem nákvæmast eða fá upplýsingar um hvar ég get nálgast efni um líffræðilegan þátt fæðingar.
Svar:
Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þó ætla ég að leitast við að svara af bestu getu.
Þrátt fyrir alla þá þekkingu sem við höfum í dag er enn ekki fyllilega vitað hvað það er sem kemur fæðingu af stað. Þó er nú orðið talið að fæðing verði fyrir tilstilli boðefna frá barninu sem hafa áhrif á m.a. hormónakerfi móðurinnar. Það eru mörg hormón sem koma við sögu í fæðingu, en þau helstu eru progesteron og oxytocin ásamt prostaglandinum. Hormónið progesteron er í miklum styrk í líkama konunnar á meðgöngu en minnkar rétt áður en fæðing verður.
Legið verður næmara fyrir hormóninu oxytocin þegar kemur að fæðingu og prostaglandin sjá um að mýkja leghálsinn svo hann geti gefið eftir þegar barnið fæðist.
Hríð kallast það þegar legið dregst saman í fæðingu. Það er hormóniðoxytocin sem veldur samdráttunum í leginu. Samdrættirnir koma í bylgjum, u.þ.b. mínútu langir, og það líða oftast 2 – 5 mínútur á milli þeirra. Í hverri hríð styttast vöðvaþræðir legsins og slakna ekki til fulls aftur þannig að rýmið í leginu minnkar og barnið þrýstist út.
Þegar barnið er fætt heldur legið áfram að dragast saman, innri flötur þess minnkar og fylgjan flettist frá legveggnum. Þessu má líkja við ef maður strekkir á teygjuefni, leggur efni sem ekki teygjist, t.d. pappír, ofan á teygjuefnið og sleppir því svo. Teygjuefnið minnkar en pappírinn heldur lögun sinni og flettist frá.
Það sem gerist í líkama móðurinnar í fæðingu er flókið samspil hormóna og boðefna sem valda samdráttum í leginu, leghálsinn opnast vegna samdráttanna og þrýstings frá barninu og barnið fæðist um fæðingarveginn þegarleghálsinn hefur opnast til fulls. Konan og umhverfi hennar hefur töluverð áhrif á það hvernig þetta ferli gengur. Um þetta geturðu betur lesið í kaflanum um fæðinguna á Doktor.is. Ekki er fyllilega vitað hvað gerist í líkama barnsins við fæðingu. Þó erljóst að fæðingin hefur örvandi áhrif á það, streymi hormóna eins og adrenalíns eykst, það dregur úr framleiðslu lungnavökva og öndunarstöðvarnar eflast. Það er barninu því hollt að fæðast, þótt það sé álag fyrir það. Til að fá sem nákvæmastar upplýsingar um fæðingu getur þú skoðað líffræðibækur og bækur um meðgöngu og fæðingu sem til eru á flestum bókasöfnum. Eins getur þú skoðað bækur um þetta efni á erlendum tungumálum t.a.m. á bókasafni Landspítalans og svo er hægt að gera lesefnisleit á netinu t.d. í gegn um Medline og Cochrane database.
Vona að þessi svör mín gagnist þér eitthvað,
Dagný Zoega, ljósmóðir