Spurning:
Sæl.
Mig langaði að spyrjast fyrir um fæðingarstellingar. Ég er komin 29 vikur á leið með mitt fyrsta barn og var greind með grindarlos og í kjölfarið látin fara til sjúkraþjálfara reglulega. Einnig var ég nýlega sett í hvíld fram að fæðingu. Ég hef, eins og margar aðrar konur séð þessa klassísku stellingu við fæðingu, þ.e.a.s. fætur í stoðum og þú svona hálf situr og hálf liggur. Ég sjálf á mjög erfitt að liggja á bakinu, hliðunum og á meira að segja oft erfitt með að sitja. Því er mín spurning sú, hvort það séu einhverjar stellingar til sem aðrar konur sem þjást af grindarlosi hafa oft valið og þótt góðar?
Bestu kveðjur.
Svar:
Sæl.
Sú fæðingarstelling sem flestum konum með grindarlos finnst best að nota er að vera á fjórum fótum. Best er þó að vera sem mest upprétt á útvíkkunartímabilinu til að nýta sér þyngdaraflið og örva framgang fæðingar og þú getur þá notað háa göngugrind til að hanga á og styðja þig. Einnig væri sjálfsagt gott fyrir þig að vera í baði til að létta þig og til að auðveldara sé fyrir þig að notfæra þér mismunandi stellingar.
Ræddu þessi mál líka við sjúkraþjálfann og ljósmóðurina þína í mæðraverndinni. Þær eiga kannski góð ráð í pokahorninu.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir