Spurning:
Sæll.
Ég er búin að vera að taka inn fjölvítamín í 1 og 1/2 ár sem er með þessu innihaldi og efast ég ekki um gæði þess. Mig langar samt að fá fræðimanns álit þitt á þessu miðað við innihaldslýsingu.
Kveðja.
Innihald = Magn, Vitamin A (as Vitamin A Palmitate) = 750 mcg (2500 IU), Vitamin D (as Cholecalciferol) = 5 mcg (200 IU), Vitamin E (as d-Alpha Tocopheryl Succinate, Beta, Gamma, Delta Tocopherols, Tocotrienols) = 100 mg (150 IU), Vitamin C (as Calcium Ascorbate) = 250 mg, Thiamin (as Thiamine Mononitrate) = 1.5 mg, Riboflavin (as Riboflavin) = 1.7 mg, Niacin (as Niacinamide) = 20 mg, Vitamin B6 (as Pyridoxine Hydrochloride) = 5 mg, Folacin (as Folic Acid) = 250 mcg, Vitamin B12 (as Cyanocobalamin) = 9 mcg, Biotin (as Biotin) = 0.15 mg, Pantothenic Acid (as d-Calcium Pantothenate) = 15 mg, Calcium (as Calcium Chelate, Calcium Carbonate, Calcium Citrate) = 250 mg, Iron (as Iron Chelate) = 1.5 mg, Magnesium (as Magnesium Aspartate, Magnesium Oxide) = 125 mg, Zinc (as Zinc Chelate) = 7.5 mg, Vitamin K1 (as Phytonadione) = 20 mcg, Copper (as Copper Chelate) = 1 mg, Selenium (as Selenium Yeast) = 50 mcg, Molybdenum (as Molybdenum Chelate) = 37.5 mcg, Manganese (as Manganese Chelate) = 1.7 mg, Chromium (as Chromium Chelate) = 100 mcg, Also Contains: Beta Carotene (as Dunaliella Salina) = 1.62 mg, Curcumin (from Turmeric Root Extract) = 25 mg, Quercetin = 25 mg, Cabbage Concentrate = 25 mg, Broccoli Concentrate = 25 mg, Citrus Bioflavonoids (from Citrus Fruits) = 12.5 mg, Lutein (from Marigold Flower Extract) = 1 mg, Lycopene (from Tomato Extract) = 0.50 mg, Alpha-Lipoic Acid = 5 mg, Grape Seed Extract with Leucoanthocyanin = 5 mg.
Svar:
Sæll.
Eftir að hafa skoðað innihaldslýsingu á því fæðubótarefni sem þú hefur verið að neyta get ég sagt með nokkuð góðri vissu að hér er um efni að ræða sem stenst allar þær kröfur sem gerðar eru til fæðubótarefna. Reyndar kemur mér á óvart hvað magn járns er lágt eða aðeins 1,5 mg. Kannski að um prentvillu sé að ræða því eðlilegar er að magnið væri um 15 mg.
Ef þú hefur áhuga á að kynna þér leyfilega hámarksskammta vítamína, steinefna og fleiri efna í fæðubótarefnum hvet ég þig til að leita á vef Lyfjastofnunar (lyfjastofnun.is) Til frekari fróðleiks um fæðubótarneyslu læt ég hér fylgja greinargerð sem er að finna í bók minni: Lífsþróttur – næringarfræði almennings.
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur.
Neysla vítamína og steinefna í fæðubótarformi
Inngangur
Mjög margir neyta á hverjum degi fæðubótarefna í formi vítamína og steinefna. Ástæður þessa geta verið ýmsar. Sumir neyta þeirra til að afla sér nokkurs konar „næringarlegrar tryggingar“ ef verið gæti að þeim tækist ekki að fá nægilega mikið af tilteknu næringarefni/efnum úr matnum. Síðan eru aðrir sem leita í vítamín/steinefni í þeirri von að neyslan komi í veg fyrir heilsubrest og geti jafnvel læknað. Á meðan sumir láta sér nægja að taka eina fjölvítamín-/steinefnatöflu daglega velja aðrir að fá sér einstök vítamín og steinefni og er þá algengt að efni eins og C-vítamín, E-vítamín, B-vítamín og steinefnin járn og kalk, verði fyrir valinu.
Hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir neyslunni getur reynst varhugavert að hefja hana án þess að fyrir liggi mat á næringarlegu ástandi einstaklingsins. Ef aftur á móti er ljóst að skortur er á einhverju efni/efnum ætti meginmarkmiðið að vera að leiðrétta mataræðið þar sem lélegt fæði er eflaust undirrót vandans. Að þessu sögðu má þó ekki falla í þá gryfju að fordæma fæðubótarneyslu því hjá flestum er neyslan „hófleg“ og hættulaus. Hér verða raktar ástæður sem mæla með og á móti neyslu vítamína/steinefna í fæðubótarformi:
Ástæður sem mæla með neyslu Neysla vítamína/steinefna í fæðubótarformi er stundum réttlætanleg. Með neyslu þeirra er hægt að leiðrétta skort á ákveðnu efni/efnum í líkamanum og einnig er möguleiki á að neysla þeirri dragi úr sjúkdómsmyndunum. Að leiðrétta mælanlega næringarefnaskort Hörgulsjúkdómar eins og skyrbjúgur (skortur á C-vítamíni), húðkröm (skortur á B-2 vítamíni), taugakröm (skortur á B-1 vítamíni) eru sjaldgæfir hjá velmegunarþjóðum en þeir finnast þar þó ennþá. Til að vinna gegn alvarlegum skorti getur reynst nauðsynlegt, í ákveðinn tíma, að gefa einstaklingnum stóra skammta af því efni sem hann vanhagar um. Skammtar eru þá allt að tvisvar til tíu sinnum stærri en hinn svokallaði ráðlagði dagskammtur.
Að bæta næringarástand líkamans
Öfugt við hefðbundna hörgulsjúkdóma, sem yfirleitt er auðvelt að greina, er oft erfitt að koma auga á „væg“ vannæringareinkenni. Þrátt fyrir að öll næringarefnin megi fá úr vel völdu og fjölbreyttu fæði geta stundum komið upp tilfelli þar sem erfitt reynist að fullnægja þörfinni fyrir nokkur lykilefni. Það má nefna sem dæmi að reynst getur nauðsynlegt fyrir jurtaætur (sem til dæmis hafa sagt skilið við kjöt, fisk, egg og mjólkurafurðir) að taka inn B-12 vítamín í fæðubótarformi. Eldra fólk og einstaklingar sem eru sjaldan úti undir berum himni gætu haft gott af því að neyta D-vítamíns. Einnig er réttætanlegt að einstaklingar sem neyta færri hitaeininga en eðlilegt má telja, (til dæmis fólk í megrun), grípi til bætiefna eins og einnar fjölvítamín-/steinefnatöflu á dag.
Reyndar er sjaldgæft að menn nái daglega að neyta allra vítamína og steinefna í því magni sem hinir ráðlögðu dagsk
ammtar segja til um en þegar til lengri tíma er litið, eins og til dæmis einnar viku, ná flestir að fullnægja þörfinni. Með öðrum orðum: Einn daginn er neysla, segjum C-vítamíns, um 20 mg en næsta dag er neyslan 100 mg sem þýðir að meðaltal þessara tveggja daga er 60 mg, það er ráðlagður dagskammtur. Dæmi um vel nærða manneskju sem þarf stundum að grípa til neyslu fæðubótar í formi steinefnisins járns er kona sem missir mikið blóð þegar hún hefur blæðingar.
Að draga úr sjúkdómsmyndun
Sumir eiga á hættu að líða af kalkskorti. Í sérstaklega áhættuhópi er fólk sem þolir ekki mjólkursykur (þjáist af mjólkursykuróþoli) eða hefur mjólkurofnæmi (þola ekki prótein sem eru í mjólk). Þessu fólki er mikilvægt að afla upplýsinga um hvaða afurðir (aðrar en mjólk og mjólkurafurðir) eru ríkar af kalki. Einnig getur neysla kalks í fæðubótarformi verið nauðsynleg.
Að styðja við aukna næringarefnaþörf
Á vissum aldri eykst næringarefnaþörf sem gerir það að verkum að erfitt getur reynst að nálgast úr fæðu tiltekin næringarefni í viðunandi magni. Það getur til dæmis reynst æskilegt fyrir ófrískar konur að neyta fólasíns í fæðubótarformi en hún stuðlar að eðlilegum þroska miðtaugakerfis fóstursins. Ófrískar konur og konur með barn á brjósti hafa mjög mikla næringarefnaþörf og þarfnast oft fæðubótargjafar í formi járns, fólasíns og kalks. Nýfæddum börnum er gefið K-vítamín við fæðingu og þau þarfnast jafnvel fleiri fæðubótarefna ef þau eru ekki á brjósti.
Að bæta virkni ónæmiskerfisins
Starfsfólk innan heilsugeirans eins og læknar og næringarfræðingar/-ráðgjafar, ráðleggja stundum tiltekin næringarefni, svo sem vítamín og steinefni. Þetta gerist til dæmis þegar verið er að hjálpa fólki sem er í afeitrunarmeðferð vegna ofneyslu alkóhóls eða annarra fíkniefna. Einnig ef fólk þjáist af sjúkdómum sem hafa áhrif á matarlyst, neyslu matar eða upptöku næringarefna. En að sjálfsögðu þarf fagfólk að taka ákvörðun um notkunina.
Ástæður sem mæla gegn neyslu
Neysla fæðubótarefna getur verið hættuleg og eftir því sem neyslan er meiri, þeim mun meiri er hættan á skaðsemi. Í reynd veit enginn fyrirfram hvenær eitrunaráhrif vegna of mikillar neyslu kemur í ljós. Ekki vita menn heldur hver lágmarksþörf þeirra er fyrir ákveðin efni ef koma á í veg fyrir skortseinkenni. Með öðrum orðum: Neysla ákveðins efnis (dæmi: C-vítamín, 20 mg á dag að jafnaði) er ónóg fyrir einn einstakling en nægileg fyrir annan. Að sama skapi getur ákveðin neysla (dæmi: C-vítamín, 3.000 mg á dag að jafnaði) reynst vera of mikil fyrir einn einstakling en skaðlaus fyrir annan.
Neysla fæðubótarefna getur leitt til eitrunaráhrifa Í reynd er oft erfitt að uppgötva eitrunaráhrif sem koma fram vegna of mikillar neyslu á vítamínum og steinefnum. Dæmi: Kona nokkur kom í rannsókn vegna lifrarsjúkdóms. Í ljós kom að hún hafði tekið inn A-vítamín í fæðubótarformi í tíu ár. Magnið var ekki mikið eða aðeins 1.000 míkrógrömm á dag (ráðlagður dagskammtur fyrir fullorðna er 1.000 míkrógrömm á dag) en það magn er oft að finna í einni fjölvítamín-/steinefnatöflu. A-vítamínið hlóðst upp í lifrinni og konan varð veik. Þegar konan aftur á móti hætti að neyta A-vítamínsins í fæðubótarformi náði lifrin að hreinsa sig og vandamálið var úr sögunni.
Vinsælasta vítamínið er C-vítamín og eru margir sem telja að mikil neysla þess (allt að 2.000-10.000 mg á dag sem er 30-165 falt meira en ráðlagður dagskammtur) hafi jákvæð áhrif til forvarnar gegn kvefi og krabbameini. Fram til þessa dags hefur ekki verið hægt að sýna fram á að neysla á C-vítamíni, umfram ráðlagðan dagskammt, hafi nein veruleg (ef þá nokkur) áhrif til dæmis á tíðni kvefsjúkdóma.
Í þessu sambandi er áhugavert að velta fyrir sér niðurstöðum rannsóknar þar sem einstaklingum var skipt í tvo hópa. Öðrum hópnum var gefin „sykurtafla“, sem sögð var vera C-vítamín. Hinum hópnum var gefið C-vítamín en talin trú um að það væri sykur í töfluformi. Niðurstöður reyndust mjög áhugaverðar vegna þess að hópurinn sem neytti sykurtaflnanna fékk síður kvef. Enginn ætti að vanmeta mátt trúarinnar í þessum efnum sem og öðrum!
Það er vitað að líkami okkar þarf aðeins um 10 mg af C-vítamíni á dag til að fyrirbyggja hörgulsjúkdóminn skyrbjúg. Þegar neysla vítamínsins er um 100 mg er frumum í líkama flestallra heilbrigðra einstaklinga ómögulegt að taka til sín meira af vítamíninu svo að það sem umfram er skolast að öllu jöfnu úr líkamanum. Ástæðan er sú að ef við neytum meira magns vatnsvítamína – C-vítamín og B-vítamín – en við þurfum, munu þau í flestum tilfellum hverfa með þvagi. Eflaust kannast sumir við fagurgult og lyktarsterkt þvag í kjölfar mikillar neyslu þessara efna.
Það kemur vísindamönnum ekki á óvart að tíðni eitrunaráhrifa vegna ofneyslu á C-vítamíni fer vaxandi, sér í lagi meðal þeirra sem neyta 8.000 mg eða meira af efninu á dag. Möguleg eitrunaráhrif eru höfuðverkur, mikil þreyta, svefnleysi, ógleði, magakrampi, niðurgangur, svitakóf og útbrot á hörundi. Hjá einstaklingum sem hafa tilhneigingu til
myndunar þvagsýrugigtar og hjá þeim sem hafa af erfðafræðilegum ástæðum afbrigðilegheit með tilliti til niðurbrots á C-vítamíni aukast líkur á myndun nýrnasteina. Einnig getur mikil óhófsneysla vítamínsins leitt til eitrunaráhrifa vegna of mikil járns í blóði en C-vítamín bætir upptöku járns í blóð.
Börn eru því miður oft fórnarlömb of mikillar neyslu vítamína og steinefna í fæðubótarformi. Ástæðan er oftast sú að börn komast í bætiefnatöflur sem eru bragðbættar og neyta þeirra eins og um sælgæti væri að ræða. Bætiefni sem innihalda járn eru sérlega hættuleg fyrir börn og of mikil neysla hefur leitt til fjölmargra dauðsfalla erlendis. Tiltölulega „væg“ ofneysla á járni leiðir til meltingartruflana, ógleði og niðurgangs. Saur getur orðið dökkur á lit en það getur bent til magablæðinga. Mikil ofneysla leiðir meðal annars til blóðniðurgangs, lifrarskemmda og dauða.
Neysla fæðubótarefna getur leitt til innbyrðis víxlverkana vítamína og steinefna. Að öllu jöfnu á líkaminn hægast með nýtingu vítamína og steinefna ef þau koma úr almennri fæðu sem er rík af margs konar vítamínum og steinefnum og öðrum efnum sem líkaminn þarfnast til viðurværis. Ef einstaklingurinn neytir ákveðins vítamíns/steinefnis í miklum mæli er sú hætta fyrir hendi að það hafi neikvæð áhrif á magn annars vítamíns/steinefnis í líkama. Þannig hindrar mikil neysla á sinki upptöku á kopar; járn hindrar upptöku sinks; kalk hindrar upptöku á magníum og járni og magníum hindrar upptöku á kalki og járni.
Þó að víxlverkanir sem þessar séu mest áberandi þegar steinefni eiga í hlut er þær einnig að finna meðal vítamína. Sem dæmi má nefna að lengi var talið að beta-karótín (sem hægt er að umbreyta í A-vítamín) væri algjörlega skaðlaust (jafnvel bráðhollt) þó að neyslan væri mjög mikil en í ljós hefur komið að ef beta-karótín er tekið í fæðubótarformi í lengri tíma virkar það neikvætt á efnaskiptaferil E-vítamíns. Einnig má geta þess að E-vítamín hefur gagnstæða verkun við K-vítamín og þess vegna ætti fólk sem er í meðferð vegna blóðstorknunarsjúkdóma (til dæmis heilablæðingar) ekki að taka inn E-vítamín í fæðubótarformi. Það kann að hindra storknun blóðs og auka líkur á endurteknum blæðingum.
Að lokum má geta þess að það vítamín sem hefur mest eitrunaráhrif allra vítamína er D-vítamín. Óhófleg neysla þess getur til dæmis haft áhrif á steinefnið kalk. Það sem getur gerst við óhófsneyslu D-vítamíns er að beinin missa of mikið kalk sem fer út í blóðið og þaðan berst kalkið síðan í of miklu magni í lykillíffæri eins og nýru og hjarta sem síðan getur leitt til myndunar nýrnarsteina og kalkmyndunar í slagæðum. Af þessum sökum er ekki ráðlegt að neyta D-vítamíns í fæðubótarformi ef sólar nýtur og drjúgum tíma varið úti við. Ekki er vitað til þess að eituráhrif geti orðið vegna mikillar geislunar frá sól.
Lokaorð
Neikvæðar afleiðingar of mikillar neyslu fæðubótarefna í formi vítamína og steinefna eru fyrir hendi. Þar sem það er óalgengt að fólk þjáist af skorti á þessum efnum í velmegunarsamfélögum nútímans ráðleggja næringarfræðingar/-ráðgjafar yfirleitt ekki neyslu fæðubótarefna heldur leggja þeir áherslu á fjölbreytta fæðu. Ef fólki aftur á móti reynist þetta ómögulegt, af einhverjum ástæðum, ætti það að láta nægja að gæða sér á einni fjölvítamín-/steinefnatöflu á dag. Magn þeirra vítamína og steinefna sem er að finna í töflunni ætti að vera um 100 prósent miðað við ráðlagðan dagskammt.