Fæðubótarefnið Pharmanex, hvaða álit hafið þið?

Spurning:

Sæll.

Hvaða álit hafið þið á nýju fæðubótarefni á markaðnum sem heitir Pharmanex (Life-Pak, Te-Green og Cordimax)?

Kær kveðja.

Svar:

Pharmanex sérhæfir sig í framleiðslu fæðubótarefna en móðurfyrirtæki Pharmanex er Nu Skin International. Að sjálfsögðu fullyrða aðstandendur Pharmanex að þeirra fæðubótarefni séu öðrum fæðubótarefnum betri! En í kynningarbæklingi frá Pharmanex má meðal annars lesa eftirfarandi fullyrðingu: „Pharmanex framleiðir bestu fæðubótarefnin sem hægt er að kaupa.” Ég tel reyndar harla ólíklegt að aðrir framleiðendur fæðubótarefna séu þessari fullyrðingu sammála!

Spurt er um þrjár tegundir fæðubótarefna sem seld eru undir merki Pharmanex og álit á þeim. Ég læt hér fylgja álit á tveimur þessara fæðubótarefna en varðandi þriðja efnið (Cordy Max) þá tel mig ekki búa yfir vitneskju sem þarf til álitsgerðar.

1. Life Pak. Hér er um töflu að ræða sem inniheldur vítamín og steinefni og ýmis jurtaefni. Fólki er ráðlagt að neyta tveggja taflna á dag. Ég get engan veginn mælt með þessu fæðubótarefni þar sem magn vissra næringaefna er margfalt hærra en næringarfræðin telur æskilegt en það eykur líkur á á að líkaminn fái of mikið magn af tilteknum efnum sem aftur getur leitt til eitrunaráhrifa. Hafa skal í huga að þegar talað er um ráðlagðan dagskammt merkir það að næringarþörf alls þorra heilbrigðs fólks sé fullnægt. Sem dæmi má nefna að A- og D- vítamín eru 200% umfram ráðlagðan dagskammt; C-vítamín um 850% umfram ráðlagðan dagskammt; E-vítamín 2000% umfram ráðlagðan dagskammt.

2. Te Green. Hér er um svo kallað grænt te að ræða og samkvæmt auglýsingunni afskaplega ríkt í andoxunarefnum. Neysla á hefðbundnu „grænu” og „svörtu” tei er af hinu góða. Aftur á móti getur reynst varhugavert að neyta jurtaefna í miklu magni því þó „hófleg” neysla jurtaefna sé heppileg líkama okkar getur mikil neysla reynst skaðleg. Staðreynd málsins er nefnilega sú að í reynd er ekki vitað hvaða afleiðingar mikil neysla slíkra efna, í lengri tíma og þaðan af síður til lífstíðar, hefur á mannslíkamann. Án óyggjandi staðfestingar um jákvæðni er ekki hægt að sætta sig við hugsanlegar hættur sem eru samfara neyslu andoxunarnæringarefna í fæðubótarformi. Hættur samfara mikilli neyslu eru svo sannarlega til staðar samanber niðurstöður rannsóknar, þar sem í ljós kom að neysla andoxunarefnisins beta-karótíns í fæðubótarformi jók á tíðni lungnakrabbameins hjá reykingamönnum! Niðurstöðurnar komu mönnum vægast sagt í opna skjöldu enda því spáð að tíðni lungnakrabbameins yrði lægra hjá þeim sem neyttu beta-karótíns þar sem athuganir á þjóðfélagshópum höfðu sýnt að þeir einstaklingar sem mældust vera með hærra magn beta-karótíns í blóði ættu síður á hættu á að fá krabbamein eins og lungnakrabbamein. Niðurstöður sem þessar ættu einnig að sýna okkur að vörn gegn lífshættulegum sjúkdómi eins og lungnakrabbameini er ekki að finna í daglegri neyslu á pillu því yfirleitt er um flókið samspil ýmissa þátta að ræða. Og fyrir einstakling sem reykir er að sjálfsögðu mun viturlegra að hætta að reykja heldur en að setja traust sitt á andoxunarnæringarefni til að forðast lungnakrabbamein. Þar fyrir utan þurfa að fara fram veigamiklar athuganir á því hve stóra skammta má nota af tilteknum andoxunarnæringarefnum og skilgreina hvaða skammtanastærð telst vera of há.
Þetta er vitað: Andoxunarnæringarefni hegða sér misjafnlega og tengist það því magni sem neytt er. Í því magni sem þessi efni finnast í hefðbundnu næringarefnaríku fæði virka þau sem andoxunarefni. En þegar þeirra er neytt í formi fæðubótarefna, iðulega langt umfram ráðlagðan dagskammt, geta þau virkað sem oxunarefni sem örva framleiðslu sindurefna (eiturefna). Á meðan ekki er fyllilega vitað hvaða hættur mikil neysla andoxunarnæringarefna í fæðubótarformi hefur í för með sér ættum við öll að vera dugleg að borða fæðu auðuga af slíkum efnum, fæðu eins og ávexti og grænmeti.

Nánari upplýsingar um fæðubótarneyslu má finna með því að fletta upp á fyrirspurn sem ber tiltilinn: Fæðubótarefni – kostir og ókostir.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur