Fæðuóþol ungbarna

Spurning:

Ágæti doktor.

Ég var forvitin að vita um einkenni fæðuóþols (fæðuofnæmis)hjá ungabörnum en fann ekkert um það.

Kveðja

Svar:

Sæl

Ég vil byrja á því að benda á að það er munur á því hvort við erum að tala um ofnæmi eða óþol. Þegar ónæmiskerfi einstaklings á í hlut er talað um að viðkomandi hafi ofnæmi. Prótein í fæðu getur verið ofnæmisvaldur en það sem gerist í líkamanum er að ónæmiskerfi einstaklingsins álítur próteinið vera líkamanum óvinveitt og ræðst gegn því. Þegar um óþol er að ræða á ónæmiskerfið ekki í hlut en einkennin geta í einhverjum tilfellum verið svipuð en aldrei eins alvarleg.

Kúamjólk, egg og fiskur eru algengir ofnæmisvaldar hjá börnum og eru það þá próteinin í viðkomandi fæðutegund sem er skaðvaldurinn. Nú til dags er ráðlagt að gefa börnum ekki egg og fisk fyrr en eftir 8 mánaða aldur, en helst ekki fyrr en eftir 12 mánuði, sérstaklega ef ofnæmi er í ættinni.

Mjólkurofnæmi er ofnæmi sem sum börn fá fyrir kúamjólk. Hjá 96% þeirra sem fá mjólkurofnæmi koma einkenni fram snemma á fyrsta ári, en ofnæmið eldist þó af þeim flestum með tímanum, oftast innan við þriggja ára aldur.

Einkenni mjólkurofnæmis geta verið margvísleg og eru mjög einstaklingsbundin. Hjá sumum koma einkenni fram strax, en hjá öðrum mörgum klukkustundum eftir að mjólkur eða mjólkurvara hefur verið neytt. Meðal algengra einkenna eru húðútbrot. Í helmingi tilfella kemur fram ristilbólga ásamt niðurgangi og uppköstum og þegar einkenni eru veruleg getur barnið þornað verulega. Einnig geta orðið blæðingar í meltingarvegi og blóðtap með hægðum. Einnig geta komið fram öndunarerfiðleikar, slím í öndunarfærum auk exems. Harðar hægðir geta jafnvel verið einkenni um mjólkurofnæmi. Óværð ungbarna yngri en 4 mánaða getur einnig verið til komin vegna mjólkurofnæmis og getur jafnvel komið fram hjá börnum sem eru eingöngu á brjósti. Það er þá til komið af því að móðirin drekkur kúamjólk. Hætti móðir að neyta mjólkurafurða meðan á brjóstagjöf stendur lagast einkennin.

Gerð var rannsókn á mjólkurofnæmi þar sem borin voru saman 324 börn í Reykjavík og 328 börn í Lundi í Svíþjóð og sýndi hún að 11% foreldra í Reykjavík töldu börn sín sýna viðbrögð gegn mjólk á meðan einungis um 5% foreldra í Svíþjóð töldu barnið sýna viðbrögð. Þegar börnin komu í húðpróf reyndist þó einungis vera hægt að staðfesta mjólkurofnæmi hjá einu íslensku barni og tveimur sænskum. Mjólkurofnæmi er ekki algengt, en talið er að tíðni þess sé 2-5% í flestum löndum.

Óþol fyrir fæðutegundum er ekki eins vel skilgreint í mörgum tilfellum. Mjólkursykuróþol og glúteinóþol eru þau óþol sem mest hafa verið rannsökuð.

Mjólkursykuróþol er vegna minnkaðrar virkni ensíms sem brýtur niður mjólkursykur og veldur því að mjólkursykur fer að einhverju eða öllu leyti ómeltur um smáþarma niður í ristil. Þar er hann gerjaður af bakteríum með tilheyrandi óþægindum, uppþembu, vindverkjum og jafnvel niðurgangi og magakrömpum. Flest ungbörn þola vel mjólkursykur. Tíðni mjólkursykuróþols hjá fullorðnum er mismunandi eftir heimshlutum og stafar munurinn líklega af erfðafræðilegum þáttum. Hér á okkar slóðum er hún í kringum 10% en getur orðið allt að 100% víða í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Einkenni glúteinóþols (glúten er meðal annars að finna í hveiti, byggi, rúgi og höfrum) eru meðal annars niðurgangur og magaóþægindi og getur leitt til næringarskorts þar sem upptaka næringarefna truflast. Einstaklingar geta verið viðkvæmir fyrir ýmsum öðrum fæðutegundum án þess að ónæmiskerfið komi við sögu og er þá talað um óþol. Einkenni fæðuóþols geta verið svipuð einkennum ofnæmis en þau verða aldrei jafn alvarleg.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur